Wikiversity

Kjarnorkusprenging í Nagasaki í Japan.

Kjarnorkustríð er stríð þar sem notast er við kjarnorkuvopn. Kjarnorkuvopnum hefur aðeins einu sinni verið beitt í stríðsátökum, en það var í síðari heimstyrjöldinni þegar Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengjum á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki.

Líklega hefur verið einna næst komist kjarnorkustríði síðan þá í svokallaðri Kúbudeilu. En þá hótuðu Bandaríkin að gera kjarnorkuárás á Sovétríkin eftir að þau síðarnefndu höfðu komið fyrir skammdrægum kjarnorkuflaugum á Kúbu.

Annars hafa komið upp a.m.k. 4 önnur minna þekkt tilvik þar sem við lá að kjarnorkustríð brytist út vegna misskilnings. Öll þessi atvik voru frekar stutt (styttri en 10 mín.).

Fyrst var það 9. nóvember árið 1979 þegar bandarískar tölvur tilkynntu um feiknarmikla kjarnorkuárás frá Sovétríkjunum, en þegar farið var að skoða gögn frá radarbúnaði og gervihnöttum þá kom í ljós að engar flaugar voru á leiðinni heldur hafði óvart verið sett af stað þjálfunarforrit í tölvunni sem gaf út viðvörunina. Stór hluti herafla Bandaríkjamanna var kominn á hátt hættustig þegar loksins kom í ljós að hættan var engin.

Næsta tilvik átti sér stað þann 3. júní 1980. Vegna bilunar í tölvukubbi hjá varnarkerfi Bandaríkjamanna sýndi það árás á Bandaríkin frá Sovétmönnum, en fjöldi kjarnorkuflauga var mismunandi eftir því á hvaða skjá var litið og við hvaða stjórnstöð var talað.

Þriðja tilvikið átti sér stað þann 26. september 1983. Þá var komið að sovéska varnarkerfinu að gefa frá sér villandi skilaboð. Sovéska kerfið virkaði þannig að það skoðaði ekki allt yfirborð jarðar eins og bandaríska kerfið gerði heldur aðeins efsta lag lofthjúpsins og notaði gervitungl sem voru staðsett á réttum stað til að sjá flaugar fara frá Bandaríkjunum. Á þessum degi sköpuðust einstakar aðstæður (sem hefði þó átt að vera hægt að sjá fyrir) þar sem sól, ský og stað/tímasetning á gervitungli leiddu til þess að gervitunglið hélt að um kjarnorkuárás væri að ræða.

Síðasta tilvikið varð síðan 25. janúar 1995 þegar Norðmenn sendu upp tilraunaeldflaug til að rannsaka norðurljósin. Norðmenn létu alþjóðasamfélagið vita af því að þeir ætluðu að framkvæma þessa tilraun en eitthvað fór úrskeiðis í upplýsingastreymi hjá Rússum og héldu þeir að Bandaríkjamenn hefðu sent upp eina Trident eldflaug sem hefði þann tilgang að blinda rússneska varnarkerfið með því að sprengja kjarnaodd hátt í gufuhvolfinu en á eftir fylgir svo hin raunverulega kjarnorkuárás.

Heimildir