Wikiversity

Breyta tenglum
Skilti fyrir utan höfuðstöðvar fyrirtækisins í Mountain View í Kaliforníu.

Google Inc. er bandarískt tölvufyrirtæki. Markmið þess er að veita almenningi yfirsýn yfir allar upplýsingar í heiminum. Til þess þróaði fyrirtækið og rekur nú leitarvélina Google en auk hennar rekur fyrirtækið ýmsar aðrar sérhæfðari leitarþjónustur. Sjálft fyrirtækið var stofnað í bílskúr árið 1998 af Larry Page og Sergey Brin en núverandi stjórnarformaður Google er Eric E. Schmidt og starfsmenn þess orðnir um 54.000 [2012]. Í nóvember árið 2006 keypti Google YouTube fyrir 1,65 milljarða hlutabréfaeign í Google. Í september árið 2008 kom út Google Chrome sem er vafri frá Google sem byggir á WebKit-umbrotsvélinni.

Saga

Upphafið

Ævintýrið í kringum Google hófst árið 1996 þegar doktorsnemarnir Larry Page og Sergey Brin við Stanford háskóla fengu hugmynd að nýrri tækni fyrir leitarvélar á internetinu. Hugmyndin byggðist á því að láta leitarvélina skoða tengsl milli vefsíðna og raða niðurstöðum leitarinnar út frá þessum tengslum. Þetta var ólíkt þáverandi leitarvélum sem allar byggðu niðurstöður sínar á hvar og hversu oft leitarorðið kom fyrir á vefsíðunni. Fyrstir með þessa hugmynd voru þeir reyndar ekki því þegar á þessum tíma var til lítil leitarvél nefnd RankDex sem byggði á þessari tækni en lítið varð úr henni og sigldi útfærsla þeirra Page og Brin á hugmyndinni fljótt fram úr. Einnig leituðu þeir nýrra leiða á vélbúnaðarsviðinu en í stað þess að keyra vélina á nýjum dýrum vefþjónum þróuðu þeir tækni til að samnýta margar eldri og ódýrari tölvur. Þeir þræddu ruslahauga og úr varð ódýr klasi vefþjóna sem hýsti nýju byltingarkenndu leitarvélina þeirra. Nafnið "Google" er reyndar bara stafsetningarvilla á töluorðinu googol, sem er 1 með 100 núllum á eftir, og höfuðstöðvarnar Googleplex er orðaleikur með aðra enn stærri tölu, googolplex - 1 með googol núllum á eftir. Fyrst láu herlegheitin á léninu google.stanford.edu en þann 15. september 1997 keyptu félagarnir lénið google.com.[1][2]

Upp úr þessu fóru þeir einnig að leita að fjárfestum og gekk misvel. Mörg stór nöfn höfnuðu þeim en aðrir lögðu fé að veði. Einn stofnenda Sun-Microsystems, Andy Bechtolsheim lagði til dæmis $100.000 fyrirtækið og í kjölfarið fóru að koma fleiri framlög. Í heildina náðu þeir að safna einni milljón dollara og þann 27. september 1998 var svo fyrirtækið Google Inc. stofnað. Það hafði þá aðsetur í bílskúr í Kaliforníu og var leitarvélin Google farin að svara um 10.000 fyrirspurnum daglega.

Í mars 1999 fluttist fyrirtækið með sína átta starfsmenn í hina frægu byggingu við 165 University Avenue í bænum Palo Alto í Kísildal. Þá voru daglegar fyrirspurnir komnar upp í 500.000. Hluti af þessum notendum kom frá AltaVista sem þá var ein mest notaða leitarvél þess tíma. Ástæðan var þó markaðsfræðileg skyssa AltaVista fremur en velheppnuð markaðssetning Google en þeir AltaVista menn tóku upp á því að breyta einföldu leitarvélinni sinni í heila vefgátt. Meira fé fór einnig að streyma inn í fyrirtækið. Nú voru þetta ekki lengur lítil fjárframlög frá einstaklingum heldur fjárfestu rótgróin fjárfestingarfyrirtæki eins og Kleiner Perkins Caufield & Byers og Sequoia Capital í Google fyrir samtals 25 milljónir bandaríkjadala. Þar að auki fóru fyrirtækjalausnir Google að seljast þegar leið á árið og venjulegi notendahópurinn var farinn að leggja fram þrjár milljónir fyrirspurna á dag. Öllum þessum umsvifum fylgdi nýtt starfsfólk og því þurfti stærra húsnæði. Brugðið var á það ráð að flytja í byggingaklasa í Mountain View í Kaliforníu en þar eru núverandi höfustöðvar Google og kallast Googleplex. Þann 21. september 1999 hvarf svo Beta merkingin af Google leitarvélinni.

Að „gúgla“ á vefnum

Sögningúgla (eða gúggla)[3] þýðir að nota leitarvél Google til að hafa upp á upplýsingum á veraldarvefnum. Til dæmis „Þór gúglaði uppskriftir“.[4] Að gúgla er tiltölulega nýlegt nýyrði í íslensku, en það á uppruna sinn í vinsældum og yfirráðum Google sem leitarvélar. Orðið varð að sögn fyrst í ensku en núna er það algengt í mörgum öðrum tungumálum. Fyrirtækið Google er samt sem áður á móti notkun orðsins þar eð eigendur þess óttast að vörumerki þess muni þynnast út við ofnotkun.[5][6]

Tilvísanir

  1. Brin, Sergey; Page, Lawrence (1998). „The anatomy of a large-scale hypertextual Web search engine“ (PDF). Computer Networks and ISDN Systems. 30 (1–7): 107–117. CiteSeerX 10.1.1.115.5930. doi:10.1016/S0169-7552(98)00110-X. ISSN 0169-7552.
  2. Barroso, L.A.; Dean, J.; Holzle, U. (29. apríl 2003). „Web search for a planet: the google cluster architecture“. IEEE Micro. 23 (2): 22–28. doi:10.1109/mm.2003.1196112. „We believe that the best price/performance tradeoff for our applications comes from fashioning a reliable computing infrastructure from clusters of unreliable commodity PCs.“
  3. „Íslensk nútímamálsorðabók“. islenskordabok.arnastofnun.is (enska). Sótt 20. desember 2023.
  4. „Íslensk stafsetningarorðabók“. stafsetning.arnastofnun.is (enska). Sótt 20. desember 2023.
  5. Frank Ahrens (5. ágúst 2006). „So Google Is No Brand X, but What Is 'Genericide'?“. Washington Post. Sótt 8. maí 2006.
  6. Krantz, Michael (25. október, 2006). „Do you "Google?". The Official Google Blog. Sótt 11. ágúst 2007.

Heimildir

Tengt efni