LIMSwiki
Efni
Í hagfræðilegum skilningi eru náttúruauðlindir þau aðföng sem sækja má til náttúrunnar og nota í efnahagsstarfsemi til framleiðslu á vörum og þjónustu. Náttúruauðlindir eru einn helsti framleiðsluþátturinn, og þeim er gjarnan skipt í flokka eftir eðli þeirra og mögulegri nýtingu.
Náttúruauðlindir sem framleiðsluþáttur
Hagfræðin skilgreinir náttúruauðlindir sem einn af mikilvægustu framleiðsluþáttunum, en framleiðsluþættir eru þau aðföng sem notuð eru í efnahagsstarfsemi til að framleiða vörur og þjónustu.[1] Í sögulegu samhengi, og í klassískri hagfræði, voru framleiðsluþættirnir sagðir þrír: náttúruauðlindir, vinnuafli og fjármagn. Á síðari tímum hefur fjórða framleiðsluþættinum gjarnan verið bætt við, en innan rekstrarhagfræðinnar er t.d. talað um stjórnunarlega framleiðsluþætti,[2] svo sem skipulag, stjórnun, þekkingu og áætlanagerð, og í ýmsum öðrum greinum hagfræðinnar er talað um nýsköpun, tækniframfarir og mannauð.[3] Umhverfis- og auðlindahagfræði er fræðigrein sem fæst sérstaklega við náttúruauðlindir sem hluta af framleiðslunni, með hliðsjón af nýtingu þeirra annars vegar og vernd hinsvegar.
Náttúruauðlindir eru gjarnan taldar vera sá framleiðsluþáttur sem er hvað mikilvægastur og stendur undir allri efnahagsstarfsemi, sem og öllu mannlegu samfélagi.[4] Þetta er áberandi í umræðunni um sjálfbæra þróun.
Flokkun náttúruauðlinda
Hugtökin „stofnar“ (e. stock resources) og „straumar“ (e. flow resources) eru notuð til þess að lýsa náttúruauðlindum og flokka þær eftir eðli þeirra á mælanlegan hátt. Með stofnum er átt við tæmandi og efnislegar nátturuauðlindir eins og t.d. skóga, fiskistofna eða jarðefnaeldsneyti. Með straumum er hins vegar átt við ótæmandi náttúruauðlindir sem geta verið (en þurfa ekki að vera) óefnislegar, eins og t.d. vatnsafl, vindorka og sólarorka.[5] Náttúruauðlindir sem teljast til stofna eru þess eðlis að notkun þeirra á einum tímapunkti hefur óhjákvæmilega áhrif á notkun þeirra á öðrum tímapunkti í framtíðinni. Það á aftur á móti ekki við þegar náttúruauðlindir sem teljast til strauma eru notaðar, þar sem notkun þeirra nú hefur ekki áhrif á notkun þeirra síðar.[6]
Straumar
Straumar eru ótæmandi náttúruauðlindir sem frekar erfitt, eða ómögulegt, er að kljúfa og einangra í smærri hluta til frekari vörslu eða vinnslu. Þessar náttúruauðlindir geta bæði verið efnislegar eða óefnislegar, og skiptast í tvo meginflokka sem eru „hrein þjónusta“ (e. nonrestorable resources) og svokallaðir „umbreytanlegir straumar“ (e. storable resources).
Náttúruauðlindir sem teljast til hreinnar þjónustu eru yfirleitt þær sem ekki er hægt að umbreyta og varðveita til neyslu í framtíðinni. Útsýni er ágætt dæmi um hreina þjónustu, svo og veðurfar og norðurljós.
Umbreytanlegir straumar eru þeir straumar sem hægt er að umbreyta og geyma með einhverju móti. Helstu dæmin um þetta eru vatnsorka, vindorka og sólarorka, þar sem vatnsaflsvirkjanir, vindmyllur og sólarsellur eru notaðar til að umbreyta orkunni, sem fæst úr þessum náttúruauðlindum, í raforku.[7]
Stofnar
Stofnar eru takmarkaðar og efnislegar náttúruauðlindir sem hægt er að nýta til fulls.[8] Helstu dæmin um slíkar náttúruauðlindir eru t.d. skógar, og jarðefnaeldsneyti eins og olía, kol og jarðgas. Stofnum er yfirleitt skipt í tvo meginflokka sem eru endurnýjanlegir stofnar annars vegar og óendurnýjanlegir stofnar hinsvegar. Óendurnýjanlegum stofnum er síðan skipt í þá sem sem hægt er að endurvinna, og þá sem ekki er hægt að endurvinna, þ.e. óendurvinnanlegir stofnar.[9] Óendurnýjanlegir stofnar eru óendurnýjanlegar auðlindir.
Náttúruauðlindir sem eru takmarkaðar og verða til á löngu tímabili, eins og t.d. jarðefnaeldsneyti, eða þær sem takmarkað magn er af og sem engin endurnýjun verður á, eins og t.d. málmar, teljast til óendurnýjanlegra stofna. Samt er greinarmunur þarna á milli, þar sem hægt er að nota suma óendurnýjanlega stofna aftur og aftur, og teljast þeir til endurvinnanlegra náttúruauðlinda. Gott dæmi um það eru málmar, en þá er hægt að endurvinna og nota aftur í aðrar vörur en þær sem þeir voru notaðir í upphaflega. Þeir stofnar sem ekki er hægt að nota aftur eru flokkaðir sem óendurvinnanlegar náttúruauðlindir. Helsta dæmið um óendurvinnanlega náttúruauðlind er jarðefnaeldsneyti, þar sem það verður einungis til á mjög löngu tímabili, og þegar það er notað brennur það upp og hverfur.[10]
Þó að tiltekin náttúruauðlind sé efnisleg og tæmandi getur hún samt sem áður verið endurnýjanleg. Skógar og fiskimið eru ágæt dæmi um endurnýjanlegar náttúruauðlindir. Skógar vaxa aftur eftir að þeir hafa verið höggnir niður, og fiskistofnar endurnýja sig eftir að veitt hefur verið úr þeim. Það sem hins vegar greinir þessa tegund náttúruauðlinda frá straumum er að það er hægt að ganga um of á þær. Skógum má eyða og ofveiða fiskistofna þar til að stofnarnir ná sér ekki aftur á strik. Í þessu samhengi er talað um ákveðna þröskulda sem ekki má fara yfir, við nýtingu á náttúruauðlindinni.[11]
Nýting náttúruauðlinda
Efnahagsstarfsemi nýtir náttúruauðlindir á margvíslegan hátt, og flokka má nýtingu þeirra með hliðsjón af því. Mikilvægasta greinarmuninn gera menn á milli beinnar notkunar annars vegar, og óbeinnar notkunar hins vegar. Með beinni notkun er átt við efnislega nýtingu þar sem unnið er úr náttúruauðlindinni og hún notuð til framleiðslu á vörum eða raforku. Óbein notkun á hinsvegar við um óefnislega nýtingu þar sem engin eiginleg framleiðsla á sér stað sem slík. Raforkuframleiðsla og jarðefnavinnsla eins og námugröftur, eru dæmi um beina nýtingu, á meðan útsýni og fegurð sem náttúruauðlind eru dæmi um óbeina nýtingu.[12] Náttúruauðlindir eins og fossar, fjöll og dýralíf eru gjarnan nýttar í ýmsum greinum ferðaþjónustu, t.d. við hvalaskoðun og fjallgöngur.
Þá geta náttúruauðlindir einnig haft gildi sem er óháð nýtingu þeirra. Á meðan talað er um „notagildi“ náttúruauðlinda (e. use values) þar sem bein (eða óbein) nýting á í hlut, þá er einnig talað um að náttúruauðlindir hafi gildi sem er annars eðlis og frábrugðið notagildinu (e. nonuse values). Náttúruauðlind er sögð hafa gildi í sjálfri sér vegna sjálfstæðrar tilvistar sinnar. Þetta er svokallað „tilvistargildi“ (e. existence value) og helstu dæmin um þetta eru hin margbreytileg líf- og vistkerfi sem eftirsóknarvert þykir að varðveita. Þá er einnig reynt að ákveðnar gerðir náttúrulegs umhverfis sem þykja sérstakar. Reynt er að koma í veg fyrir að ákveðnar dýrategundir deyi út o.s.frv. Nýtingarmöguleikar í framtíðinni (e. option value) flokkast einnig undir þetta. Gildi þess fyrir framtíðarkynslóðir, að þær fái að njóta tiltekinnar náttúruauðlindar eftir ár og aldir, flokkast sem sérstakt gildi náttúruauðlinda (e. bequest and gift value).[13]
Tiltölulega auðvelt er að verðleggja notagildi náttúruauðlinda (beina og óbeina nýtingu) með markaðsaðferðum í hagkerfum þar sem markaðsbúskapur er við lýði, en sýnu erfiðara að leggja peningalegt mat á og markaðssetja, tilvistargildi þeirra og notagildi fyrir framtíðarkynslóðir. Notagildi eru reglulega metinn til fjár á markaði, en það er sjaldgæft að slíkt hið sama sé gert um annarskonar gildi (e. nonuse values) eins og hér hefur verið greint frá.[14]
Rýrnun náttúruauðlinda
Rýrnun eða eyðing náttúruauðlinda (e. depletion) hefur á síðustu árum orðið að alvarlegu áhyggjuefni og er eitthvað sem þarf að hafa í huga við alla nýtingu á náttúruauðlindum. Stofnar, eins og jarðefnaeldsneyti og fiskistofnar, eru í eðli sínu takmarkaðir. Hægt er að yrja upp óendurnýjanlega stofna eins og olíu, kol og jarðgas, á meðan koma má til móts við rýrnun á endurnýtanlegum stofnum eins og málmum með því að endurvinna þá. Þegar endurnýjanlegir stofnar eins og fiskimið og skógar eiga í hlut, þarf að gæta þess að ganga ekki svo hart að þeim að þeir nái ekki að endurnýja sig, þ.e.a.s. að nýta ekki umfram þröskuldinn sem stofninn þolir.[15]
Svokölluð „staðgenglun“ (e. substitution) er mikilvægt tæki til að vinna gegn eyðingu náttúruauðlinda. Með því er átt við að með tækniframförum og aukinni þekkingu, megi annaðhvort skipta einni náttúruauðlind út fyrir aðra eða að koma til móts við minni nýtingu á tiltekinni náttúruaðlind með því að auka vægi annarra framleiðsluþátta í staðinn, eins og fjármagns, sem stendur á bak við tæki og tól, mannaflans og mannauðsins.[16]
Rýrnun náttúruauðlinda endurspeglast í verði. Ef framboð minnkar hækkar verðið á móti. Því getur hækkandi verð á tilteknum náttúruauðlindum oft verið vísbending um að hún sé að ganga til þurrðar.[17] Hins vegar gerist þetta hægt í samanburði við aðrar vörur á markaði, vegna þess að framboð á náttúrauðlindum eru tiltölulega óteygið. Til skamms tíma verða ekki miklar breytingar á framboði af náttúruauðlindum.[18] En smávægilegar verðbreytingar á náttúruauðlindum geta samt sem áður haft miklar afleiðingar fyrir efnahagslífið.[19] Sumir hagfræðingar vilja meina að náttúruauðlindir geti ekki klárast, vegna þess að eftir því sem framboð þeirra minnki hækki verðið, og með hærra verði minnki eftirspurn í samræmi við það.[20] Samkvæmt þessari kenningu mun eftirspurn eftir tiltekinni nátturuauðlind aldrei verða nógu mikil til þess að auðlindin klárist, vegna þess að eftirspurnin er í öfugu hlutfalli við verðbreytingar á markaði.
Til eru ýmsar aðferðir til að reikna út hvernig hagkvæmast sé fyrir samfélagið í heild sinni að nýta náttúruauðlindir, með tilliti til rýrnunar þeirra. Þá er talað um félagslega hagkvæmni.[21] Í því samhengi er mikilvægt að gera ráð fyrir þeim neikvæðu ytri áhrifum (úthrifum) sem nýting náttúruauðlinda hefur í för með sér, og færa það inn í jöfnuna.[22] Hins vegar er gjarnan erfitt að reikna slíkt út nákvæmlega og mikil óvissa liggur oft á tíðum fyrir. Þá er oft óljóst hve mikið er til af heildarbirgðum tiltekinna náttúruauðlinda. Tækniframfarir gera oft kleift að finna nýjar birgðir, eins og olíulindir á afskekktum stöðum, svo það nær ómögulegt getur verið að vita heildarstöðu birgða tiltekinnar náttúruauðlindar á ákveðnum tímapunkti.
Þetta tengist umræðunni um svokallað „olíuhámark.“
Tilvísanir
- ↑ Mankiw og Taylor, 2011, bls. 383 og 885.
- ↑ Ágúst Einarsson, 2007, bls. 33.
- ↑ Field, 2008, bls. 26 og 37n.
- ↑ Young og Dhanda, 2013.
- ↑ Field, 2008, bls. 26.
- ↑ Perman o.fl., 2003, bls. 11.
- ↑ Field, 2008, bls. 26.
- ↑ Field, 2008, bls. 26.
- ↑ Field, 2008, bls. 31-33.
- ↑ Field, 2008, bls. 31-32.
- ↑ Field, 2008, bls. 33.
- ↑ Field, 2008, bls. 28-29.
- ↑ Field, 2008, 148-149 og 163.
- ↑ Field, 2008, bls. 148-149.
- ↑ Field, 2008, bls. 26 og 31-33.
- ↑ Field, 2008, 6-7; Mankiw og Taylor, 2011, bls. 532-534.
- ↑ Ágúst Einarsson, 2005, bls. 33; Field, 2008, bls. 5-6; Mankiw og Taylor, 2011, bls. 532-534.
- ↑ Ágúst Einarsson, 2005, bls. 303.
- ↑ Field, 2008, bls. 159-160; Mankiw og Taylor, 2011, bls. 741.
- ↑ Leontief, 1977.
- ↑ Field, 2008, bls. 7-8.
- ↑ Groenewegen, Spithoven og Berg, 2010, bls. 324.
Heimildir
- Ágúst Einarsson (2007). Rekstrarhagfræði. Reykjavík: Mál og menning.
- Field, Barry C (2008). Natural Resource Economics: an introduction (2. útgáfa). Long Grove: Waveland Press.
- Groenewegen, J., Spithoven, A. og Berg, A (2010). Institutional Economics. An Introduction. Basingstoke; New York: Palgrave Macmillan.
- Leontief, Wassily. „The Future of the World Economy“. Socio-Economic Plannig Sciences. 11 (3) (1977): 171-182.
- Mankiw, N. G. og Taylor, M. P (2011). Economics (2. útgáfa). Andover: Cengage Learning.
- Perman, Roger., Ma, Yue., McGilvray, James. og Common, Michael (2003). Natural Resource and Environmental Economics (3. útgáfa). Harlow: Pearson Education.
- Young, Scott T. og Dhanda, Kanwalroop Kathy (2013). Sustainability: Essentials for Business. Thousand Oaks: Sage Publications.