LIMSpec Wiki
47°30′00″N 19°03′00″A / 47.50000°N 19.05000°A
Ungverjaland | |
Magyarország | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: Himnusz | |
Höfuðborg | Búdapest |
Opinbert tungumál | ungverska |
Stjórnarfar | þingbundið Lýðveldi
|
Forseti | Tamás Sulyok |
Forsætisráðherra | Viktor Orbán |
Stofnun | |
• Ungverska konungdæmið | Desember 1000 |
Evrópusambandsaðild | 1. maí 2004 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
108. sæti 93.030 km² 0,74 |
Mannfjöldi • Samtals (2021) • Þéttleiki byggðar |
91. sæti 9.730.000[1] 105/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2020 |
• Samtals | 316,342 [2] millj. dala (53. sæti) |
• Á mann | 32.434 dalir (41. sæti) |
VÞL (2019) | 0.854 (40. sæti) |
Gjaldmiðill | Ungversk fórinta (Ft) (HUF) |
Tímabelti | UTC+1 (UTC+2 á sumrin) |
Þjóðarlén | .hu |
Landsnúmer | +36 |
Ungverjaland (ungverska: Magyarország) er landlukt land í Mið-Evrópu, rétt austan Alpafjalla. Það er rúmlega 93 þús km2 að stærð og á landamæri að Slóvakíu í norðri, Úkraínu í norðaustri, Rúmeníu í austri og suðaustri, Serbíu í suðri, Króatíu og Slóveníu í suðvestri og Austurríki í vestri. Íbúar eru 10 milljónir og teljast flestir til Ungverja, en þar býr líka stór minnihlutahópur Rómafólks. Ungverska er opinbert tungumál í landinu. Það er stærsta úralska málið og eitt af fáum Evrópumálum sem ekki tilheyrir indóevrópsku málaættinni.[3] Höfuðborg landsins og stærsta borgin er Búdapest, en aðrar stórar borgir eru meðal annars Debrecen, Szeged, Miskolc, Pécs og Győr.
Ýmsar þjóðir hafa byggt landið sem í dag er Ungverjaland, þar á meðal Keltar, Rómverjar, Germanar, Húnar, Vestur-Slavar og Avarar. Fyrsta ungverska ríkið var stofnað seint á 9. öld þegar Ungverjar lögðu karpatísku sléttuna undir sig undir stjórn Árpáds.[4][5] Barnabarn hans, Stefán 1., gerði landið að kristnu konungsríki. Á 12. öld var Ungverjaland orðið að öflugu ríki sem náði hátindi sínum á 15. öld.[6] Eftir orrustuna við Mohács árið 1526 var landið að hluta hernumið af Tyrkjaveldi (1541-1699). Í upphafi 18. aldar varð Ungverjaland hluti af ríki Habsborgara og seinna hluti af Austurrísk-ungverska keisaradæminu sem var stórveldi í Evrópu fram á 20. öld.[7]
Austurríki-Ungverjaland leystist upp eftir fyrri heimsstyrjöld og núverandi landamæri Ungverjalands voru staðfest með Trianon-samningnum, sem leiddi til missis 71% af landsvæðinu og 58% af íbúunum.[8][9][10] Eftir róstusöm millistríðsár gerðist Ungverjaland bandamaður Öxulveldanna í síðari heimsstyrjöld þar sem mannfall og eyðilegging varð mikil.[11][12] Eftir stríð var Ungverjaland á áhrifasvæði Sovétríkjanna sem leiddi til stofnunar Alþýðulýðveldisins Ungverjalands. Eftir uppreisnina í Ungverjalandi árið 1956 réðust Sovétríkin inn í landið og komið var á kommúnistastjórn sem var eilítið frjálslegri en í öðrum ríkjum Austurblokkarinnar. Niðurrif landamæragirðinga í Ungverjalandi 1989 flýtti fyrir hruni Austurblokkarinnar og upplausn Sovétríkjanna.[13] Þann 23. október 1989 var lýðræði endurreist í landinu.[14] Ungverjaland gerðist aðili að Evrópusambandinu árið 2004 og hefur verið hluti af Schengen-svæðinu frá 2007.[15]
Á alþjóðavettvangi telst Ungverjaland til miðvelda, aðallega vegna menningarlegra og efnahagslegra áhrifa landsins í sínum heimshluta.[16] Landið er hátekjuland sem situr hátt á vísitölu um þróun lífsgæða, með ókeypis heilbrigðisþjónustu og framhaldsmenntun.[17][18] Ungverjaland á sér langa afrekasögu í myndlist, tónlist, bókmenntum, íþróttum, vísindum og tækni.[19][20][21] Landið er vinsæll áfangastaður ferðamanna með tæplega 25 ferðamenn árið 2019.[22] Landið var fyrsta austurevrópska ríkið sem gekk í NATO í mars 1999. Þann 1. maí 2004 fékk það inngöngu í Evrópusambandið. Landið á aðild að fjölda alþjóðastofnana eins og Evrópuráðinu, Sameinuðu þjóðunum, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Heimsbankanum, Alþjóðafjárfestingabankanum, Innviðafjárfestingabanka Asíu og Visegrád-hópnum.[23]
Heiti
Ungverjaland heitir Magyarország á ungversku. Heitið er dregið af einum af sjö ættbálkum úgríta, magyara, sem komu upphaflega frá Mið-Asíu. Magyarar sameinuðu ættbálkana á 10. öld og upp frá þeim tíma var heitið notað yfir landið. Á öðrum tungumálum er heitið hins vegar komið úr slavnesku. Slavar kölluðu íbúana onogur, sem merkir tíu ættir. Úr því myndaðist orðið Ungverjar. Ítalir segja Ungheria, en Danir og Þjóðverjar Ungarn. Á latínu bættist auka –h– við orðið, svo úr varð Hungarus. Þannig heitir landið enn Hungary á ensku og Hongrie á frönsku.
Saga
Landnám
Ungverjar eiga uppruna sinn vestast á síberísku sléttunum, rétt austan Úralfjalla. Þeir kölluðust þá Úgríar. Á síðustu öldum f.Kr. flutti hluti þessa fólks sig til vesturs, þegar hann komst í snertingu við aðra þjóðflokka, s.s. Skýþa. Á þessum tíma voru ættbálkar Ungverja enn sjö eða átta. Þeir sameinuðust við norðanvert Svartahaf á fyrstu öldunum e.Kr. Seint á 9. öld, nánar tiltekið 895-896, fluttu Ungverjar sig enn vestar og settust að á sléttunni miklu sem í dag kallast Ungverska sléttan. Áður hafði sléttan sú tilheyrt Rómaveldi, síðan Germönum og loks Húnum. Eftir að Húnar höfðu verið sigraðir myndaðist nokkurt tómarými á sléttunni, þrátt fyrir að ýmsir Slavar settust þar að. Það var því ekki mikið tiltökumál fyrir Ungverja að setjast að á sléttunni og svæðunum þar í kring. Landnámið gekk hratt fyrir sig, en Ungverjar settust að á landsvæði sem í dag nær langt inn í Rúmeníu, Slóvakíu, Slóveníu og Króatíu. Ekki var um frekara landnám til vesturs að ræða, því í Austurríki var germanskt landnám í fullum gangi. Þar bjuggu Bæjarar og Frankar.
Ránsferðir
Strax og Ungverjar voru búnir að koma sér vel fyrir á sléttunni, hófu þeir að herja á nágrannahéruð með ránsferðum. Riddaraflokkar þeirra voru mjög léttir og hreyfanlegir, og þannig gátu þeir sigrað vel skipulagða og þróaða heri. Á fyrstu þremur áratugum 10. aldar fóru Ungverjar í árangursríkar langferðir, stundum alla leið til hins heilaga rómverska ríkis, Mið-Ítalíu, Frakklands og jafnvel Balkanskaga. Þannig var mikið af vestrænum vörum flutt til ungversku sléttunnar. Engum tókst að hrinda árásum Ungverja, enda voru þeir fljótir í förum. Mikill ótti við þá greip um sig víða í Evrópu. Árið 933 gerðust Ungverjar svo djarfir að heimta skatt af hinum þýska keisara hins heilaga rómverska ríkis, Hinriki I. Í maí á því ári barðist keisari við Ungverja í orrustunni við Riade, sunnarlega í Saxlandi. Þar sigraði Hinrik og hrakti Ungverja út úr hinu heilaga rómverska ríki. Þrátt fyrir ósigurinn héldu Ungverjar áfram ránsferðum sínum. Árið 955 fór fram stórorrustan á Lechvöllum (Lechfeld) í Bæjaralandi milli Ungverja og Ottó I. keisara. Þar vann Ottó keisari fullnaðarsigur á Ungverjum. Eftir þetta drógu Ungverjar sig með öllu til baka til sléttunnar og fóru aðeins eina ránsferð enn. Hún var farin gegn Austrómverska ríkinu (Býsans), en þar biðu Ungverjar enn ósigur.
Konungsríkið
Stórfurstinn Géza og sonur hans Vajk (Stefán) umbyltu landinu og buðu trúboðum að kristna landið. Árið 1001 varð Ungverjaland að konungsríki, er Stefán I. konungur hlaut formlega viðurkenningu af páfa. Hann gerði kristni að ríkistrú og lét reisa kirkjur. Fyrir vikið var hann gerður að dýrlingi kaþólsku kirkjunnar þegar árið 1089. Með völdum hjónaböndum var friðurinn haldinn við nágrannaþjóðir. Þannig sameinaðist Króatía Ungverjalandi 1102. Á miðri 13. öld ruddust Mongólar vestur til Evrópu. 1241 tóku Ungverjar á móti þeim í orrustunni við Muhi, en biðu mikinn ósigur. Í kjölfarið nánast eyddu Mongólar ríkinu. Um helmingur landsmanna var drepinn. Mongólar hurfu hins vegar fljótt aftur til síns heima. Béla IV. konungur tók þá til bragðs að bjóða þýskumælandi fólki að setjast að í Ungverjalandi, aðallega á þeim svæðum sem nú eru í Rúmeníu og Slóvakíu.
Ósmanir
Á 14. öld höfðu Ósmanir (Tyrkir) náð fótfestu í Suðaustur-Evrópu og sóttu vestur. Árið 1396 héldu Ungverjar, ásamt frönskum riddaraher, í fyrsta sinn til orrustu við þá við Nikopol (Búlgaríu), en biðu mikinn ósigur. Ósmanir náðu þó ekki að nýta sér sigurinn að ráði. Aftur var barist við Warna í Búlgaríu 1444. Á þessum tíma var Wladislaw III. í senn konungur Ungverjalands og Póllands. Orrustunni lauk með algerum sigri Ósmana og þar féll Wladislaw. Í kjölfarið hertóku Ósmanir hvert landsvæðið á fætur öðru (Mikligarður féll 1453). Ungverjar hættu afskiptum af stríðinu gegn þeim og áttu jafnvel stutt blómaskeið þegar Matthías Corvinus var konungur 1458-1490. Á 16. öld náðu Ósmanir til Ungverjalands. Árið 1526 dró til stórorrustu við Mohács í suðurhluta landsins. Þar gjörsigraði Súleiman mikli Ungverja og féll þar Lúðvík II. konungur (sonur Önnu af Foix). Ósigurinn var svo mikill að í ungversku máli varð Mohács að tákngervingi hins versta. Í kjölfarið fóru Ósmanir ránshendi um rúmlega helming Ungverjalands áður en þeir héldu gegn Vínarborg (1529). Eftir fall Lúðvíks konungs var barist um konungdóminn, en erkihertoginn af Austurríki, Ferdinand, gerði tilkall til hans. Þegar Ósmanir réðust aftur inn í Ungverjaland 1541, var meginhluti landsins svo gott sem á valdi Austurríkis. Aðeins Transylvanía (Rúmenía) var á valdi Ungverja. Ósmanir lögðu Búda í eyði og hertóku aðrar helstu borgir landsins. Við það varð meginhluti Ungverjalands að héraði í Ósmanaríkinu og áfram næstu 140 árin. Ungverjum fækkaði mikið á þessum tíma, en talið er að þeim hafi fækkað úr 3,5-4 milljónum niður í 2,5. Ósmanir réðust ekki gegn Vín á nýjan leik fyrr en árið 1683. Eftir sigur sinn þar gerðu Habsborgarar harða hríð að Ósmönum í Ungverjalandi og hröktu þá úr landi á fjórum árum. Ósmanir áttu aldrei afturkvæmt til Ungverjalands.
Habsborg
Eftir að Habsborgarar hröktu Ósmani burt, var hinn níu ára gamli erkihertogi Austurríkis, Jósef, kjörinn til konungs í Ungverjalandi og var krúnan erfðafest. Krýningin fór fram 9. desember 1687 í Bratislava (sem þá var í Ungverjalandi). Löndin voru þó ekki sameinuð, heldur var hér ávallt um tvö ríki undir sama einvaldi að ræða. Ungverjar voru ekki sáttir við þetta ráðslag, en fengu ekki að gert. Uppreisnin mikla 1703-1711 gegn yfirráðum Habsborgara breytti þar engu um. Þegar María Teresa sat við völd í Vín hófst mikið landnám þýskumælandi manna í Ungverjalandi. Nær alla 18. öldina naut landið friðar, einnig á tímum Napóleonsstríðanna. En eftir Vínarfundinn hófst mikil þjóðarvakning meðal Ungverja. Árið 1825 varð ungverska að ríkismáli á ný, en Habsborgarar höfðu áður notað latínu. Uppreisn gegn Habsborgurum hófst á ný árið 1848 undir forystu Lajos Kossuth. Hún fékk mikinn hljómgrunn víða um land. Þann 14. apríl 1849 safnaðist ungverskt þing í fyrsta sinn saman í mótmælendakirkjunni í borginni Debrecen, en þar lýsti Kossuth yfir endalokum yfirráða Habsborgar og jafnframt sjálfstæði Ungverjalands. Herir frá Austurríki fengu aðstoð Rússa til að berjast við uppreisnarmenn en náðu ekki að brjóta þá á bak aftur fyrr en í ágúst á sama ári eftir blóðuga bardaga. Leiðtogar uppreisnarmanna, ásamt ungverska forsætisráðherranum, voru teknir af lífi. En eftir þetta reyndist ómögulegt fyrir Austurríki að stjórna Ungverjalandi með óbreyttum hætti og árið 1867 settist Frans Jósef I. keisari niður með leiðtogum Ungverja og hið nýja fjölþjóðaríki var stofnað. Ungverska þingið var endurreist og ungverska þjóðin aðskilin hinum þýskumælandi íbúum Austurríkis. Ungverjaland varð að konungsríki á ný, en konungur og drottning voru eftir sem áður keisari og keisaraynja Austurríkis. Þau voru krýnd í Búda (þ.e. Búdapest). Króatía var sameinuð Ungverjalandi á ný. Króatar voru mjög ósáttir við það ráðslag en fengu ekki að gert. Ungverjar sjálfir voru mjög ánægðir með nýja ríkið og hélst konungssambandið við Austurríki allt til loka heimsstyrjaldarinnar fyrri 1918.
Millistríðsárin
Við stríðslok 1918 breyttist ríkjaskipan talsvert á Balkanskaga. Samfara Tríanon-samningnum 1920 var Júgóslavía stofnuð sem ríki. Við það missti Ungverjaland Króatíu, Slóvakíu og Vojvodina-hérað. Auk þess missti Ungverjaland Transylvaníu og Banat til Rúmeníu. Loks var vestasti hluti landsins sameinaður Austurríki (Burgenland). Alls missti Ungverjaland tvo þriðju hluta lands síns til nágrannalandanna (minnkaði úr 279 þús. km2 í 93 þús. km2) og við það urðu núverandi landamæri landsins til. Flestar náttúruauðlindir töpuðust við tilfærslu landamæranna, þar sem þau voru í töpuðu héruðunum. Svo varð landið þar að auki að greiða stríðsskaðabætur í 33 ár fyrir þátt sinn í stríðsrekstri heimsstyrjaldarinnar. Landið var formlega enn konungsríki, en undir stjórn ríkisstjóra, Miklós Horthy. Með tímanum hallaðist landið að Þýskalandi, en milliríkjasamningar voru gerðir 1934, skömmu eftir valdatöku Hitlers. Strax 1937 hófust herferðir gegn gyðingum í landinu. Ungverjaland studdi Þjóðverja í innrás þeirra á Balkanskaga og tók þátt í stríðinu gegn Sovétríkjunum frá 1941. Í viðskiptum fóru um 73% alls útflutnings Ungverjalands til Þýskalands. Fyrir vikið var Ungverjaland stækkað og hlaut vænar sneiðar af Rúmeníu, Tékkóslóvakíu og Júgóslavíu, allt með fulltingi Þjóðverja. En brátt sá Horthy að sér, þar sem herferðin til Rússlands gekk ekki sem skyldi. Árið 1943 hafði hann samband við bandamenn í því skyni að láta af stuðningi við Hitler. 19. mars 1944 réðust Þjóðverjar því inn í Ungverjaland og hertóku landið. Horthy var steypt af stóli og Döme Sztójay tók við embætti forsætisráðherra. Hann var þó eingöngu leiksoppur Þjóðverja. Nasistar, undir stjórn Adolfs Eichmann, hófu að flytja gyðinga úr landi í stórum stíl. Á aðeins tveimur mánuðum voru tæplega 440 þús gyðingar í Ungverjalandi fluttir í útrýmingarbúðir, þrátt fyrir kröftug mótmæli nýju leppstjórnarinnar. Það var á þessum tíma sem sænska diplómatanum Raoul Wallenberg tókst að bjarga þúsundum gyðinga, m.a. með því að veita þeim sænsk bráðabirgðavegabréf. Wallenberg hvarf í október 1944 og er líklegast að Sovétmenn hafi handtekið hann. Sama mánuð var stjórninni í Búdapest steypt og við tók fasistastjórn Ferenc Szálasi. Aðeins nokkrum dögum seinna kom rússneski herinn inn fyrir landamærin. Búdapest varð fyrir miklum loftárásum bandamanna, sérstaklega á tímabilinu desember 1944 til febrúar 1945. Í kjölfarið settist Rauði herinn um höfuðborgina og tók umsátrið alls 102 daga uns borgin féll í þeirra hendur eftir mikla bardaga. Síðustu bardagar í Ungverjalandi fóru fram 4. apríl 1945, en þá var landið algerlega í höndum Sovétmanna. Landið var í rúst, en mikið tjón á vélum, búfénaði og öðru nær eyðilagði atvinnulíf landsins. 600.000 Ungverjar létust í stríðinu, að viðbættum 440.000 gyðingum.
Eftirstríðsárin
Samfara Parísarsamkomulaginu 1947 misstu Ungverjar öll þau landsvæði sem þeir hlutu á stríðsárunum. Sovétmenn handtóku hundruð þúsunda Ungverja og fluttu þá í vinnubúðir til Sovétríkjanna, þar sem álitið er að 200.000 þeirra hafi látist. Eftir stríð gerðu bandamenn ráð fyrir lýðveldisstofnun í Ungverjalandi. Í kosningum síðla árs 1945 hlutu kommúnistar afar lítið fylgi og sömuleiðis í kosningunum 1947 (22%). En 1949 voru allir stjórnmálaflokkar aðrir en kommúnistaflokkurinn bannaðir og var þá mynduð ný stjórn í anda Stalíns. Forsætisráðherra varð Mátyás Rákosi. Á árunum þar á eftir fékk hin alræmda öryggislögregla ríkisins það hlutverk að hreinsa landið af óæskilegum mótherjum. Eftir lát Stalíns tók Imre Nagy, forsætisráðherra, upp frjálslyndari stefnu. Fyrir vikið var hann handtekinn 1955 og allt komst í sama horf aftur. 23. október 1956 hófst allsherjaruppreisn borgara í Búdapest, sem dreifðist til annarra borga. Stjórninni var steypt og Imre Nagy varð forsætisráðherra á ný. Hann dró landið úr Varsjárbandalaginu, stofnaði fjölflokkastjórn, leysti öryggislögregluna upp og lýsti yfir hlutleysi Ungverjalands. Þann 1. nóvember réðst sovéski herinn inn í landið og í nokkra daga á eftir stóðu yfir miklir bardagar hér og þar um landið, sérstaklega í Búdapest. 22. nóvember höfðu Sovétmenn náð landinu á sitt vald. Nagy var handtekinn og hengdur eftir stutt réttarhöld. Í kjölfarið flúðu rúmlega 200.000 Ungverjar land, aðallega til Austurríkis. Um 100.000 sovéskir hermenn urðu eftir í landinu til að koma í veg fyrir aðra uppreisn. Nýr forsætisráðherra varð János Kádár, en hann ríkti til 1988. Undir hans stjórn varð allnokkur efnahagsuppgangur og er þetta tímabil stundum kennt við gúllaskommúnisma. Árið 1988 voru blikur á lofti. Þíða myndaðist meðal ráðamanna þegar stjórnarandstaða var opinberlega leyfð. Í lok ársins tók Miklós Németh við sem forsætisráðherra og 2. maí 1989 hóf landið að rífa niður varnir sínar við landamærin að Austurríki, sökum kostnaðarsams viðhalds að eigin sögn. Opnun eins varðhliðsins þann 19. ágúst var fyrsta opnun járntjaldsins í Evrópu og 23. október sama ár var nýtt lýðveldi stofnað í Ungverjalandi. Fyrstu lýðræðislegu kosningarnar fóru fram 25. mars 1990 og var í kjölfarið mynduð stjórn þriggja flokka. Forsætisráðherra varð József Antall. Landið gekk úr Varsjárbandalaginu 26. júní. Áður en árið var liðið yfirgáfu síðustu sovésku hermennirnir landið en 12. mars 1999 gekk Ungverjaland formlega í NATO og 1. maí 2004 fékk landið inngöngu í Evrópusambandið.
Nútímasaga
Í þingkosningum árið 2010 vann íhaldssami hægriflokkurinn Fidesz afgerandi meirihluta á ungverska þinginu og formaður hans, Viktor Orbán, varð forsætisráðherra Ungverjalands í annað skipti. Stjórnin hélt afgerandi þingmeirihluta sínum eftir kosningar árin 2014, 2018 og 2022.
Árið 2013 gerði ríkisstjórn Orbáns víðtækar breytingar á ungversku stjórnarskránni sem meðal annars miðuðu að því að takmarka völd stjórnlagadómstóls landsins og leysa frá störfum dómara við tilskilinn eftirlaunaaldur. Vegna ýmissa lagabreytinga sem þykja skerða sjálfstæði dómstóla og fjölmiðla í Ungverjalandi hefur gjarnan verið bent á stjórn Orbáns sem dæmi um „lýðræðisrof(en)“ þar sem umsvif lýðræðislegra stofnana eru smám saman veikt innan frá.[24][25][26][27] Í kórónaveirufaraldrinum árið 2020 samþykkti ungverska þingið ótímabundin neyðarlög sem heimila Orbán að stýra landinu með stjórnartilskipunum.[28][29] Ótakmörkuðu tilskipanavaldi Orbáns lauk þann 18. júní en þess í stað var samþykkt að lýsa yfir „læknisfræðilegu neyðarástandi“ sem heimilar stjórninni áfram að gefa út tilskipanir í ýmsum málefnum.[30] Í árlegri skýrslu sinni um stöðu lýðræðis í heiminum árið 2020 komst bandaríska hugveitan Freedom House að þeirri niðurstöðu að Ungverjaland gæti ekki lengur talist lýðræðisríki.[31]
Landfræði
Ungverjaland á landamæri að sjö öðrum ríkjum. Fyrir norðan er Slóvakía, fyrir norðaustan Úkraína, fyrir austan Rúmenía, fyrir sunnan Serbía, Króatía og Slóvenía og fyrir vestan Austurríki. Landið er afar láglent og er lægsti punkur þess í aðeins 78 metra hæð yfir sjó, þrátt fyrir mikla fjarlægð til sjávar. Dóná skiptir landinu í tvo hluta, en fljótið rennur frá norðri til suðurs um miðbik landsins. Nær allur austurhluti landsins er á ungversku sléttunni (pússtunni). Vestan við Dóná er hæðótt landslag og þar er nokkurt fjalllendi. Hæsti tindur landsins, Kékes, nær þó ekki nema 1.014 metra hæð. Vestast er Vínarsléttan sem teygir sig yfir landamærin til Austurríkis. Vestarlega í landinu er Balatonvatn, en það er stærsta stöðuvatn Mið-Evrópu.
Sýslur
Ungverjalandi er skipt niður í 19 sýslur, kallaðar megye á ungversku. Margar þeirra eru ævagamlar, enda myndaðar árið 1000 þegar Ungverjaland varð að konungsríki. Auk sýslnanna eru 24 sjálfstæðar borgir í landinu. Þær tilheyra viðkomandi sýslu, en íbúar kjósa sér borgarráð og taka ekki þátt í sýslukosningum. Árið 1999 var landinu auk þess skipt niður í sjö héruð samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins. Í hverju héraði eru 2-3 sýslur.
Borgir
Búdapest er langstærsta borg landsins með um 1,7 milljónir íbúa. Næstu borgir eru ekki með nema rúmlega 200.000 íbúa.
Stærstu borgir landsins:
Röð | Borg | Íbúafjöldi | Hérað |
---|---|---|---|
1 | Búdapest | 1,7 milljónir | |
2 | Debrecen | 204 þúsund | Hajdú-Bihar |
3 | Miskolc | 172 þúsund | Borsod-Abaúj-Zemplén |
4 | Szeged | 164 þúsund | Csongrád |
5 | Pécs | 156 þúsund | Baranya |
6 | Györ | 128 þúsund | Györ-Moson-Sopron |
7 | Nyíregyháza | 116 þúsund | Szabolcs-Szatmár-Bereg |
8 | Kecskemét | 109 þúsund | Bács-Kiskun |
9 | Székesfehérvár | 101 þúsund | Fejér |
10 | Szombathely | 79 þúsund | Vas |
11 | Szolnok | 75 þúsund | Jász-Nagykun-Szolnok |
12 | Tatabánya | 70 þúsund | Fejér |
Fjöll
Ungverjaland er frekar láglent land og að mestu leyti sléttur. Aðeins í vestri og norðri eru einhver fjöll sem kalla má. Þau eru þó ekki há og yfirleitt vaxin skógi. Hæstu fjöll landsins eru í norðri. Þar eru fjallgarðarnir Matra og Bükk sem slaga upp í 1000 m hæð. Hæsta fjall landsins er Kékes í Matrafjöllum, 1014 m hátt. Þrátt fyrir litla hæð er skíðabraut í fjallinu sem er opin á veturna.
Ár og vötn
Í Ungverjalandi er fjöldi áa. Stærstu fljótin eru Tisza og Dóná, en báðar renna þær frá norðri til suðurs í gegnum landið. Báðar eru að öllu leyti skipgengar innanlands. Aðrar stórar ár eru Raba vestast í landinu og Drava við landamærin að Króatíu. Sameiginlegt með öllum þessum fljótum er að ekkert þeirra á upptök sín í Ungverjalandi, heldur er uppspretta þeirra allra í nágrannalöndunum. Þótt Dóná sé aðeins næstlengsta áin innanlands, er hún eina vatnasvið landsins. Allar aðrar ár renna í Dóná, eða í einhverjar af þverám hennar.
Lengstu fljótin í tölum:
|
|
Auk ofangreindra fljóta er Sió-skurðurinn lengsta manngerða vatnaleiðin, en hann var grafinn að mestu eftir litlum árfarvegi. Skurðurinn liggur úr norðausturhluta Balatonvatns til Dónár.
Þrjú meiri háttar stöðuvötn eru í Ungverjalandi. Stærst þeirra er Balatonvatn í vestanverðu landinu, en það er jafnframt stærsta stöðuvatn Mið-Evrópu, 594 km2. Norðvestast er Neusiedler See (Fertö á ungversku). Aðeins syðsti hluti vatnsins er í Ungverjalandi, bróðurparturinn er í Austurríki. Ungverski hlutinn er mikilvægt náttúrufriðland og er á heimsminjaskrá UNESCO. Í austurhluta landsins er Tiszavatn, en það myndaðist við stíflugerð í fljótinu Tisza 1973. Vatnið er 127 km2 að stærð og þar með langstærsta lón landsins.
Stjórnmál
Í Ungverjalandi er þingbundin stjórn. Þingið situr aðeins í einni deild, þar sem eru 386 sæti. Almennar kosningar eru á fjögurra ára fresti. Þær síðustu fóru fram 2010. Þingið velur hins vegar forseta landsins (til fimm ára), forsætisráðherrann, stjórnlagaráðið, forseta hæstaréttar og ríkissaksóknara. Forsætisráðherrann er valdamesti maður landsins og Viktor Orbán hefur nú gegnt því embætti frá 2010. Ungverjaland gekk í NATO 1999 og var meðal fyrstu fyrrverandi kommúnistaríkja sem það gerði. Árið 2004 gekk landið svo einnig í Evrópusambandið. Ungversku stjórninni ber skylda til að sinna hagsmunum Ungverja í nágrannaríkjunum, en þeir eru um 2,5 milljónir, aðallega í Rúmeníu og Slóvakíu. Þetta hefur orsakað nokkra spennu milli landanna, sérstaklega eftir að ungverska þingið ákvað 2010 að veita öllum Ungverjum í nágrannalöndunum ungverskan ríkisborgarrétt. Slóvakar hafa í kjölfarið hótað að reka alla þá sem það þiggja úr opinberum embættum í landinu, en 10% íbúa í Slóvakíu eru Ungverjar.
Þjóðfáni og skjaldarmerki
Þjóðfáni Ungverjalands er með þremur láréttum röndum: Rautt efst, hvítt fyrir miðju og grænt neðst. Rauði liturinn táknar blóðið sem úthellt var fyrir sjálfstæði landsins. Hvíti liturinn táknar hreinleika landsins. Græni liturinn stendur fyrir byltinguna á 19. öld. Litirnir sem slíkir eru hins vegar miklu eldri og ná aftur til upphafs Ungverja sem þjóðar. Þrílita fánann notaði Matthías II. konungur fyrstur árið 1608, en hann laut þá Habsborgarkeisara. Hins vegar voru aðrir fánar einnig notaðir, sérstaklega meðan Ungverjaland var hluti af keisararíki Austurríkis. Þó héldust litirnir. Þegar keisararíkið leystist upp 1918 varð þríliti fáninn að ríkistákni. Þá var fáninn talsvert lengri en hann er í dag. 1940 var skjaldarmerki landsins sett í miðju fánans. Því merki var skipt út fyrir sósíalískt merki (hamar, ax, rauð stjarna) allt til 1957 er merkið hvarf aftur úr fánanum. 1. október það ár var núverandi fáni (án tákns) tekinn í notkun. Þess má geta að þjóðfáni Tadsikistans er nákvæmlega eins, nema hvað hann er með gulu tákni fyrir miðju, rendurnar eru misbreiðar og fáninn er ívið lengri. Saga fánanna er auk þess gjörólík.
Skjaldarmerki Ungverjalands er tvískiptur skjöldur með kórónu efst. Til hægri er patríarkakrossinn sem stendur á þrítindi. Tindarnir merkja fjöllin Tatra, Fatra og Matra. Tvö þau fyrrnefndu eru í Slóvakíu í dag. Páfinn léði Stefáni konungi krossinn árið 1000. Fyrir miðju er gullkóróna, en hún bættist við skjaldarmerkið á 17. öld. Til vinstri eru átta rauðar og hvítar rendur. Uppruni þeirra er óljós, en þær voru komnar fram á 13. öld. Sumir vilja meina að hvítu rendurnar tákni hin fjögur höfuðfljót landsins: Dóná, Tisza, Drava og Sava. Efst er svo Stefánskórónan, en hún er konungskóróna Ungverjalands. Skjaldarmerki þetta hefur tekið talsverðum breytingum í gegnum tíðina. Núverandi merki var tekið upp 1990 eftir snarpar umræður á þinginu.
Hermál
Her Ungverjalands telur um 30 þús manns. Flestir eru í landhernum (rúm 23 þús), en um 7000 í flughernum. Konur eru 17% allra hermanna. Enginn er sjóherinn, enda liggur Ungverjaland ekki að sjó. Aðaltilgangur hersins er að tryggja varnir landsins á stríðstímum. Auk þess starfar herinn náið með herjum NATO, sem reyndar hefur gagnrýnt ungverska herinn fyrir að vera of veikburða til að sinna eigin vörnum ef stríð brytist út. Fjórum sinnum hafa Ungverjar sent herlið í friðargæslu til annarra landa. Til Bosníu 158 manns, til Afganistans 205 manns og til Kosóvó 484 manns. Auk þess sendu Ungverjar herlið til Íraks, en kölluðu það til baka árið 2005.
Gjaldmiðill
Þrátt fyrir að vera í Evrópusambandinu er Ungverjaland með eigin mynt. Hún kallast forinta og filler (100 filler = 1 forinta). Forintan heitir eftir Florenus, myntinni sem borgríkið Flórens á Ítalíu gaf út fyrr á öldum. Karl Róbert af Anjou tók myntina upp í Ungverjalandi árið 1325 og þótti hún einn sterkasti gjaldmiðill Mið-Evrópu fram á 17. öld. Þótt landið yrði hluti af keisararíkinu Austurríki var haldið áfram að nota forintuna fram til 1892, en þá tók við ungverska krónan. Sökum óðaverðbólgu í kreppunni miklu var krónan tekin úr umferð og penkö tekið upp. Þá náði óðaverðbólgan þvílíkum hæðum að gjaldmiðillinn varð verðlaus. Árið 1946 var forintan aftur tekin í notkun og styrktist hún mjög á tímum kommúnismans. Hún er enn gjaldmiðill landsins í dag. Ráðgert er að taka upp evruna, en það verður ekki gert fyrr en í fyrsta lagi 2020, ef Ungverjaland uppfyllir þau efnahagslegu skilyrði sem fyrir því hafa verið sett.
Íbúar
Ungverjar eru 10 milljónir talsins og hefur þeim fækkað hratt síðustu áratugi. 1995 voru íbúarnir um 10,3 milljónir. Mannfjöldaspár gera ráð fyrir að Ungverjum haldi áfram að fækka, og um miðja öldina verði þeir 9 milljónir sé litið til núverandi þróunar. Íbúaþéttleiki landsins, sé miðað við 10 milljónir íbúa, er 107,5 íbúar á km2.
Stærsti hluti íbúanna eru Ungverjar (magyarar), eða 92,3%. Stærsti minnihlutahópurinn er Rómafólkið (1,7%), öðru nafni sígaunar. Auk þess búa um 2,4 milljónir Ungverjar í nágrannalöndunum, aðallega í Rúmeníu austan landamæranna.
Tungumál
Þjóðtunga Ungverja er ungverska. Engin önnur tunga er viðurkennd sem ríkismál, þrátt fyrir fjölda minnihlutahópa í landinu. Utan við landsteinana er ungverska líka víða töluð í Rúmeníu, Slóvakíu og Serbíu, sem og í öðrum nágrannalöndum. Í Rúmeníu búa 1,4 milljónir Ungverja, en í Slóvakíu 520 þús (10% af slóvösku þjóðinni).
Trúarbrögð
Í manntali 2001 kom í ljós að tæplega 55% þjóðarinnar kenndu sig við kaþólsku kirkjuna. Sú trú er í miklum meirihluta um allt miðbik og vesturhluta landsins. Um 16% játuðu Kalvínstrú og eru þeir austast í landinu og á nokkrum stöðum vestast. Fyrir heimsstyrjöldina síðari bjuggu um 800 þús gyðingar í Ungverjalandi. Í dag eru þeir ekki nema tæplega 49 þúsund. Í öðrum trúarhópum er talsvert færra. Um fjórðungur landsmanna játuðu hins vegar enga trú, eða slepptu því að nefna trúfélag. Í landinu er engin þjóðkirkja.
Menning
Listir
Þekktustu listamenn Ungverjalands eru án efa tónlistarmenn. Meðal helstu má nefna Franz Liszt, Imre Kálmán, Franz Lehár, Ernő Dohnányi, Zoltán Kodály og Béla Bartók, en sá síðastnefndi var mikill safnari ungverskrar þjóðlagatónlistar. Blómaskeið ungverskra bókmennta er 19. öldin, en þá rituðu þjóðskáldin Mihály Vörösmarty, János Arany og Sándor Petőfi helstu bókmenntalegi stórvirki Ungverja. Ferenc Molnár er helsta leikritaskáld og rithöfundur landsins á 20. öld. Miklós Barabás er helsti málari Ungverja, en hann var uppi á 19. öld. Margir þessara listamanna bjuggu erlendis, t.d. í Austurríki eða Bandaríkjunum.
Vísindi
Af þekktum ungverskum vísindamönnum má nefna Albert Szent-Györgyi (Nóbelsverðlaun í læknisfræði 1937), sem uppgötvaði C-vítamín og bjó til fyrstu gervivítamínin. Kálmán Tihanyi fann upp hitamyndavélina og plasmasjónvarpið. Leó Szilárd smíðaði fyrsta kjarnorkuverið og fann upp rafeindasmásjána. László Bíró fann upp Bírópennann. Edward Teller smíðaði fyrstu kjarnorkusprengjurnar (ásamt Robert Oppenheimer) og er faðir vetnissprengjunnar. Ernö Rubik fann upp Rúbík-kubbinn.
Matargerð
Ungversk matargerð einkennist mikið af bændasamfélagi ungversku sléttunnar áður fyrr. Þekktasti rétturinn er án efa gúllasið (gulyas á ungversku), en það er heiti á sérstökum súpum með ýmsu kjöti. Í þær er oft sett paprika og því eru súpurnar gjarnan sterkar. Gúllasið er til í ýmsu formi og var á 19. öld undirstöðufæða ungverskra hermanna (kallaðist gúllaskanóna). Ungverjaland er einnig þekkt fyrir hinar ýmsu pylsutegundir, en vissar borgir og landshlutar eiga sér oft sínar einkennispylsur. Víða um landið eru góð vínræktarsvæði, þótt ungversk vín séu minna þekkt en mörg önnur evrópsk vín. Þeirra helst er Tokaj-vínið sem framleitt er norðaustast í landinu og að einhverju leyti af Ungverjum í Slóvakíu. Tokaj-vínin voru á borðum við konungshirðir víða í Evrópu á 19. öld.
Íþróttir
Þjóðaríþrótt Ungverja er knattspyrna. Landsliðið hefur þrisvar orðið Ólympíumeistari í knattspyrnu á sumarólympíuleikum (1952, 1964 og 1968). Það hefur níu sinnum keppt í úrslitakeppni HM og tvisvar komist í úrslitaleikinn. 1938 tapaði liðið fyrir Ítalíu og 1954 fyrir Þjóðverjum. Gullaldarár ungverskrar knattspyrnu voru frá fjórða áratug 20. aldar til sjöunda áratugarins. Helsti knattspyrnumaður Ungverja var Ferenc Puskás sem lék eingöngu með Honvéd í Búdapest og Real Madrid. Sigursælasta félagsliðið er Ferencváros Búdapest sem 28 sinnum hefur orðið ungverskur meistari. Liðið komst einu sinni í úrslit í Evrópukeppni bikarhafa (1975), en tapaði þá fyrir Dynamo Kiev. Handbolti er einnig mikið leikinn í Ungverjalandi. Lið eins og KC Veszprém og SC Szeged eru þekkt í Evrópu. Tvær þekktar kappakstursbrautir eru í landinu. Á Hungaroring er keppt í Formúlu 1, en á Pannoniaring á mótorhjólum. Íshokkí er vaxandi íþrótt í Ungverjalandi. Árið 2009 tryggði landsliðið sér þátttökurétt í HM í fyrsta sinn í 70 ár.
Helgidagar
Ólíkt öðrum löndum eru þrír þjóðhátíðardagar í Ungverjalandi, allt eftir tilefni. 15. mars er haldið upp á marsbyltinguna, 20. ágúst uppá stofnun ríkisins og 23. október uppá byltingardaginn gegn kommústastjórninni 1956. Auk neðangreindra helgidaga voru nokkrir í viðbót á tímum kommúnismans, en þeir voru afnumdir við stofnun lýðveldisins 1989.
Opinberir helgidagar í Ungverjalandi:
Dags. | Helgidagur | Ath. |
---|---|---|
1. janúar | Nýársdagur | |
15. mars | Þjóðhátíðardagur | Marsbyltingin 1848 |
Breytilegt að vori | Páskar | Sunnudagur og mánudagur |
1. maí | Verkalýðsdagur | Innganga landsins í Evrópusambandið 2004 |
Breytilegt að vori | Hvítasunna | Sunnudagur og mánudagur |
20. ágúst | Þjóðhátíðardagur | Stofnun konungsríkisins, dagur heilags Stefáns |
23. október | Þjóðhátíðardagur | Uppreisnin 1956 og stofnun lýðveldisins 1989 |
1. nóvember | Allraheilagramessa | |
25. og 26. desember | Jól |
Tilvísanir
- ↑ „STADAT – 1.1. Népesség, népmozgalom (1941–)“. www.ksh.hu. Afrit af uppruna á 20. júní 2019. Sótt 12. júní 2019.
- ↑ „World Economic Outlook Database, October 2020“. IMF.org. International Monetary Fund. Sótt 20. október 2020.
- ↑ „Uralic (Finno-Ugrian) languages, Classification of the Uralic (Finno-Ugrian) languages, with present numbers of speakers and areas of distribution (last updated 24 September 201)“. helsinki.fi. 6. júní 2017. Sótt 6. júní 2017.
- ↑ „Hungary in the Carpathian Basin“ (PDF). Lajos Gubcsi, PhD. 6. júní 2017. Sótt 6. júní 2017.
- ↑ Acta Orientalia Academiae Scientiarum Hungaricae. 36. árgangur. Magyar Tudományos Akadémia (Hungarian Academy of Sciences). 1982. bls. 419.
- ↑ Kristó Gyula – Barta János – Gergely Jenő: Magyarország története előidőktől 2000-ig, Pannonica Kiadó, Budapest, 2002, ISBN 963-9252-56-5, p. 687, pp. 37, pp. 113.
- ↑ Austria-Hungary, HISTORICAL EMPIRE, EUROPE. 6. júní 2017. Sótt 6. júní 2017.
- ↑ Richard C. Frucht (31. desember 2004). Eastern Europe: An Introduction to the People, Lands, and Culture. ABC-CLIO. bls. 360. ISBN 978-1-57607-800-6.
- ↑ Trianon, Treaty of. 2009.
- ↑ „Text of the Treaty, Treaty of Peace Between The Allied and Associated Powers and Hungary And Protocol and Declaration, Signed at Trianon June 4, 1920“. Sótt 10. júní 2009.
- ↑ Hungary: The Unwilling Satellite Geymt 16 febrúar 2007 í Wayback Machine John F. Montgomery, Hungary: The Unwilling Satellite. Devin-Adair Company, New York, 1947. Reprint: Simon Publications, 2002.
- ↑ Thomas, The Royal Hungarian Army in World War II, pg. 11
- ↑ Hanrahan, Brian (9. maí 2009). „Hungary's Role in the 1989 Revolutions“. BBC News.
- ↑ „1989. évi XXXI. törvény az Alkotmány módosításáról“ [Act XXXI of 1989 on the Amendment of the Constitution]. Magyar Közlöny (ungverska). Budapest: Pallas Lap- és Könyvkiadó Vállalat. 44 (74): 1219. 23. október 1989.
- ↑ „Benefits of EU Membership“. Hungarian Chamber of Commerce and Industry. 6. júní 2017. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. júní 2017. Sótt 6. júní 2017.
- ↑ Higgott, Richard A.; Cooper, Andrew Fenton (1990). „Middle Power Leadership and Coalition Building: Australia, the Cairns Group, and the Uruguay Round of Trade Negotiations“. International Organization. 44 (4): 589–632. doi:10.1017/S0020818300035414. ISSN 0020-8183. JSTOR 2706854. S2CID 153563278.
- ↑ OECD (27. júní 2013). „OECD Health Data: Social protection“. OECD Health Statistics (Database). doi:10.1787/data-00544-en. Sótt 14. júlí 2013.
- ↑ Eurydice. „Compulsory Education in Europe 2013/2014“ (PDF). European commission. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 6. nóvember 2013. Sótt 19. maí 2014.
- ↑ „Hungary's Nobel Prize Winners, 13 Hungarian win Nobel Prize yet“. Hungarian Academy of Sciences. Sótt 2. apríl 2022.
- ↑ „Population per Gold Medal. Hungary has the second highest gold medal per capita in the world. All together it has 175 gold medal until 2016“. medalspercapita.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. júlí 2017. Sótt 19. ágúst 2022.
- ↑ [http://www.britannica.com/EBchecked/topic/276684/Hungarian-literature Encyclopædia Britannica, 2012 edition
- ↑ „STADAT – 4.5.3. The number of inbound trips to Hungary and the related expenditures by motivation (2009–)“. Hungarian Central Statistical Office. Sótt 2. júní 2022.
- ↑ „International organizations in Hungary“. Ministry of Foreign Affairs. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. mars 2016. Sótt 20. nóvember 2016.
- ↑ Licia Cianetti, James Dawson & Seán Hanley (2018). „Rethinking "democratic backsliding" in Central and Eastern Europe – looking beyond Hungary and Poland“. East European Politics. 34 (3): 243–256. doi:10.1080/21599165.2018.1491401. ISSN 2159-9173. „Over the past decade, a scholarly consensus has emerged that that democracy in Central and Eastern Europe (CEE) is deteriorating, a trend often subsumed under the label 'backsliding'. ... the new dynamics of backsliding are best illustrated by the one-time democratic front-runners Hungary and Poland.“
- ↑ Kingsley, Patrick (10. febrúar 2018). „As West Fears the Rise of Autocrats, Hungary Shows What's Possible“. The New York Times (bandarísk enska). ISSN 0362-4331. Sótt 27. maí 2019.
- ↑ Bozóki, András; Hegedűs, Dániel (3. október 2018). „An externally constrained hybrid regime: Hungary in the European Union“. Democratization. 25 (7): 1173–1189. doi:10.1080/13510347.2018.1455664. ISSN 1351-0347.
- ↑ Bogaards, Matthijs (17. nóvember 2018). „De-democratization in Hungary: diffusely defective democracy“. Democratization. 25 (8): 1481–1499. doi:10.1080/13510347.2018.1485015. ISSN 1351-0347.
- ↑ Þorgerður Anna Gunnarsdóttir (30. mars 2020). „Ungverskt lýðræði í ótímabundna sóttkví?“. mbl.is. Sótt 8. apríl 2020.
- ↑ Kjartan Kjartansson (30. mars 2020). „Orban fær ótímabunduð tilskipanavald“. Vísir. Sótt 8. apríl 2020.
- ↑ Lili Bayer (18. júní 2020). „Hungary replaces rule by decree with 'state of medical crisis'“. Politico. Sótt 15. júlí 2020.
- ↑ Þórgnýr Einar Albertsson (6. maí 2020). „Telja Ungverjaland ekki lengur lýðræðisríki“. Vísir. Sótt 7. maí 2020.
Heimildir
- Fyrirmynd greinarinnar var „Ungarn“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt september 2012.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Hungary“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt september 2012.