LabLynx Wiki

Breyta tenglum
Kort sem sýnir Kyrrahafið.

Kyrrahaf er stærsta og dýpsta úthaf jarðar. Það nær yfir um 46% af vatnshvolfi jarðar og 32% af heildaryfirborði hnattarins. Það er 165.250.000 að stærð ef miðað er við strönd Suðurskautslandsins og er því stærra en allt þurrlendi jarðarinnar samanlagt. Það afmarkast í stórum dráttum af Norður-, Mið- og Suður-Ameríku að austan; meginlandi Asíu, Japan og Indónesíu, Nýja Sjálandi og Ástralíu að vestan. Það nær frá Beringssundi í norðri að Suðurskautslandinu í suðri (eða að 60° suður ef miðað er við mörk Suður-Íshafsins).

Meðaldýpt Kyrrahafsins er um 4.000 metrar.[1] Mesta dýpi í heimi er í Maríanadjúpálnum í Norðvestur-Kyrrahafi, 10.928 metrar.[2] Í Kyrrahafinu er líka dýpsti punktur suðurhvels jarðar í Tongadjúpálnum, 10.823 metrar á dýpt.[3] Þriðji dýpsti punktur jarðar, Sírenudjúpið, er líka í Kyrrahafinu.

Mörg randhöf eru í Kyrrahafinu, eins og Suður-Kínahaf, Austur-Kínahaf, Japanshaf, Okotskhaf, Filippseyjahaf, Kóralhaf, Jövuhaf og Tasmanhaf.

Í Kyrrahafinu er gífurlegur fjöldi eyja, sem flestar eru smáar. Margar þeirra eru byggðar mönnum, en þó munu fleiri vera óbyggðar. Eftir Kyrrahafinu nokkurn veginn miðju liggur daglínan í dálitlum hlykkjum frá norðri til suðurs.

Heiti

Snemma á 16. öld kom spænski landkönnuðurinn Vasco Núñez de Balboa auga á Kyrrahafið þegar hann fór yfir Panamaeiðið árið 1513. Hann kallaði það á spænsku Mar del Sur („Suðurhaf“). Núverandi nafn fékk hafið eftir hnattsiglingu Ferdinand Magellan árið 1521. Hann fékk hagstæða vinda þegar hann sigldi inn á hafið og nefndi það því Mar Pacífico („Friðarhaf“).

Elsta dæmið um orðið Kyrrahaf í ritmálssafni orðabókar Háskóla Íslands er í Klausturpóstinum frá 1819 þar sem það er skrifað í tveimur orðum „Kyrra haf“.

Helstu eyjar og eyjaþyrpingar

Tilvísanir

  1. Administration, US Department of Commerce, National Oceanic and Atmospheric. „How big is the Pacific Ocean?“. oceanexplorer.noaa.gov (bandarísk enska). Sótt 18. október 2018.
  2. „Deepest Submarine Dive in History, Five Deeps Expedition Conquers Challenger Deep“ (PDF).
  3. „CONFIRMED: Horizon Deep Second Deepest Point on the Planet“ (PDF).
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.