HL7 Wiki

Skjaldarmerki Aldinborgarar Konungur Danmerkur og Noregs
Aldinborgarar
Kristján 7.
Kristján 7.
Ríkisár 1766-1808
Fæddur29. janúar, 1749
Dáinn13. mars, 1808
 Rendsburg
Konungsfjölskyldan
Faðir Friðrik 5. Danakonungur
Móðir Lovísa af Stóra-Bretlandi
DrottningKarólína Matthildur af Wales
BörnFriðrik
Lovísa Ágústa

Kristján 7. (29. janúar 1749 - 13. mars 1808) var konungur Dansk-norska ríkisins. Hann var sonur Friðriks 5. og Lovísu af Stóra-Bretlandi. Hann tók við völdum tæplega 17 ára, þann 14. janúar 1766. Hann giftist barnungri frænku sinni, Karólínu Matthildi af Stóra-Bretlandi þann 8. nóvember sama ár. Hún var þá aðeins 15 ára. Tveimur árum seinna, eða 1768, eignaðist hún son sem síðar varð Friðrik 6. og var hann eina barnið sem þau áttu saman.

Kristján er sagður hafa sýnt góðar gáfur á barnsaldri en þegar hann eltist kom í ljós að hann gekk ekki heill til skógar. Sumir telja að hann hafi verið haldinn geðklofa og kom sjúkdómur hans sérstaklega fram þegar hann nálgaðist tvítugt og smám saman varð hann alveg óhæfur til að stýra ríkinu, en hann var mjög áhrifagjarn og auðvelt að stýra honum svo að ríkisstjórnin var að mestu í höndum ráðgjafa hans. Þess í stað stundaði konungur krárnar í Kaupmannahöfn ásamt vændiskonunni Önnu Cathrine Benthagen (Stígvéla-Katrínu).

Konungurinn ferðaðist til Þýskalands 1768 og í Altona kynntist hann lækninum Johann Friedrich Struensee. Fór svo vel á með þeim að Struensee fór með Kristjáni til Kaupmannahafnar og varð líflæknir hans. Þegar bólusóttarfaraldur hófst í Kaupmannahöfn haustið 1769 kom Struensee því til leiðar að fjöldi barna var bólusettur, þar á meðal Friðrik litli krónprins, og ávann hann sér þar með traust drottningarinnar og varð svo elskhugi hennar. Kristján konungur treysti æ meira á lækni sinn og Struensee stýrði landinu í raun 1770-1772 og hann og vinur hans, Enevold Brandt, einangruðu konunginn frá hirðinni.

Í ársbyrjun 1772 tók hópur hirðmanna, þar á meðal Júlíana María ekkjudrottning, stjúpmóðir Kristjáns, og sonur hennar og hálfbróðir konungs, Friðrik erfðaprins, sig saman um að steypa Struensee og var hann handtekinn og tekinn af lífi ásamt Enevold Brandt, en Karólína Matthildur drottning var send í útlegð og dó fáeinum árum síðar. Dóttir hennar, Lovísa Ágústa, sem næsta víst er að var dóttir Struensee þótt Kristján konungur hafi gengist við henni, ólst aftur á móti upp við dönsku hirðina ásamt bróður sínum.

Kristján var engan veginn fær um að taka við völdum að nýju og var hann í raun hafður áfram í einangrun. Fram til 1784 voru völdin í höndum ráðgjafa, einkum Ove Høegh-Guldberg, en þá gerði Friðrik krónprins hallarbyltingu og tók við völdum. Formlega var faðir hans þó áfram einvaldur og undirritaði öll lög; stundum neitaði hann að undirrita það sem sonur hans lagði fyrir hann en Friðrik beið þá átekta og lagði lögin aftur fyrir föður sinn seinna. Þá hafði Kristján gleymt öllu saman og undirskrifaði lögin.

Kristján 7. var konungur í rúma fjóra áratugi þótt hann hefði í raun aldrei eiginleg völd. Hann dó úr hjartaslagi í Rendsborg 13. mars 1808 og var grafinn í Hróarskeldudómkirkju.


Fyrirrennari:
Friðrik 5.
Konungur Danmerkur
(1766 – 1808)
Eftirmaður:
Friðrik 6.