Type a search term to find related articles by LIMS subject matter experts gathered from the most trusted and dynamic collaboration tools in the laboratory informatics industry.
Kristni er eingyðistrú af abrahamískum stofni. Upphafsmaður trúarbragðanna og sá sem þau eru kennd við var Jesú frá Nasaret sem meðal kristinna manna er kallaður Jesús Kristur. Kristni er stærstu trúarbrögð heims, með um 2,5 milljarða fylgjenda.[1] Kristnir eru í meirihluta í 157 löndum heims.[2] Kristnir trúa því að Jesús hafi verið sá messías sem Hebreska biblían (sem þeir kalla Gamla testamentið) boðar að muni koma. Flestir kristnir söfnuðir trúa því að hann hafi verið sonur guðs og risið upp frá dauðum, svo að þeir sem á hann trúi öðlist eilíft líf. Sagt er frá lífi hans og boðskap í Nýja testamentinu, sem er síðari hluti Biblíunnar, trúarrits kristinna manna.[3]
Kristni er fjölbreytt trúarbrögð með mörg afbrigði. Henni er gjarnan skipt í vesturkirkju og austurkirkju, en hún skiptist líka eftir afstöðu söfnuða gagnvart guðfræðilegum atriðum eins og réttlætingu og eðli frelsunarinnar, kirkjufræði, prestvígslum og kristsfræði. Trúarjátningar flestra kristinna söfnuða ganga út frá því að Jesús hafi verið sonur Guðs sem boðaði trú, þoldi píslir og var krossfestur, en reis upp frá dauðum til að frelsa mannkynið, sem er kallað fagnaðarerindið. Viðurkenndu guðspjöllin fjögur; Matteusarguðspjall, Markúsarguðspjall, Lúkasarguðspjall og Jóhannesarguðspjall, segja frá lífi og boðskap Jesú, en Gamla testamentið myndar bakgrunn þeirra.
Upphaf kristinnar trúar má rekja til sértrúarsafnaðar gyðinga á tímum annars musterisins í Jerúsalem, í rómverska skattlandinu Júdeu á 1. öld. Lærisveinar Jesú og fylgismenn þeirra breiddu trúna út um Mið-Austurlönd og til Evrópu, Anatólíu, Mesópótamíu, Suður-Kákasus, Egyptalands og Eþíópíu. Þrátt fyrir ofsóknir á hendur kristnum mönnum fyrstu aldirnar í Rómaveldi dró trúin að sér fólk utan gyðingdómsins sem varð til þess að hún fjarlægðist hefðir gyðinga. Eftir fall Jerúsalem árið 70, sem markar endalok tímabils annars musterisins, greindist kristni enn frekar frá gyðingdómi. Konstantínus mikli gerði kristni löglega í Rómaveldi með Mílanótilskipuninni árið 313. Hann boðaði líka kirkjuþingið í Níkeu árið 325 þar sem kristnin mótaðist í þá mynd sem varð ríkiskirkja Rómaveldis árið 380. Fram til 313 er talað um „stórkirkjuna“, áður en stóru klofningarnir áttu sér stað. Í frumkristni voru samt til kristnir klofningshópar eins og gnostíkerar og kristnir gyðingar. Eftir kirkjuþingið í Efesos 431 klofnaði kirkjan í austur- og vesturkirkju og eftir kirkjuþingið í Kalkedónos 451 klauf austræni rétttrúnaðurinn sig frá vegna deilna um kristsfræði. Í kirkjusundrunginni árið 1054 klofnaði kirkjan í rétttrúnaðarkirkjuna og kaþólsku kirkjuna vegna deilna um vald páfans í Róm. Á 16. öld klufu margir mótmælendasöfnuðir sig frá kaþólsku kirkjunni í kjölfar siðaskiptanna vegna ýmissa guðfræðilegra og kirkjufræðilegra álitamála. Kristni lék stórt hlutverk við mótun vestrænnar menningar frá síðfornöld og fram á miðaldir.[4][5][6][7] Í kjölfar landafundanna breiddist kristni út til Ameríku, Eyjaálfu, Afríku og Asíu með markvissu trúboði.[8][9][10]
Fjórar stærstu greinar kristni eru rómversk-kaþólsk trú (1,3 milljarðar/50,1%), mótmælendatrú (920 milljónir/36,7%), rétttrúnaðarkirkjan (230 milljónir) og kirkjur austræna réttrúnaðarins (62 milljónir). Rétttrúnaðarkirkjur eru samanlagt 11,9% kristinna.[11][12] Þúsundir minni safnaða eru til, þrátt fyrir tilraunir til sameiningar.[13] Þótt aðild að kristnum söfnuðum hafi minnkað á Vesturlöndum er kristni enn ríkjandi trúarbrögð í heimshlutanum þar sem um 70% telja sig kristna.[14] Auk þess fer fjöldi kristinna vaxandi í Asíu og Afríku.[15] Kristnir menn sæta ofsóknum sum staðar í heiminum, einkum í Mið-Austurlöndum, Norður-Afríku, Suður-Asíu og Austur-Asíu.[16][17]
Kristni er upprunnin fyrir botni Miðjarðarhafs, þaðan sem Jesús var, en fljótlega færðist þungamiðja trúarbragðanna til Rómar, sem var á þeim tíma langöflugasta miðstöð menningar við Miðjarðarhafið. Til að byrja með voru kristnir fáir og litið niður á þá, og voru þeir ofsóttir í Rómaveldi vegna þess að þeir neituðu að dýrka keisarann sem guð. En árið 313 veitti Konstantín keisari kristnum mönnum trúfrelsi og hætti ofsóknum í Róm þar með. Árið 391 gerði Theodosius I kristni að ríkistrú í rómaveldi. Kristni breiddist einnig út í nágrannalöndum, árið 301 varð kristni gerð að ríkistrú í Armeníu og var það fyrsta kristna ríkiskirkjan í heiminum. Til að byrja með var lítil miðstjórn meðal kristinna og miklar deilur um ýmis trúaratriði, til dæmis eðli Jesú og Heilaga þrenningu. Keisarinn var yfir kirkjunni, en það var aðeins að nafninu til. Af og til voru haldin kirkjuþing, þar sem saman komu helstu trúspekingar samtímans og embættismenn hinna ýmsu kirkjudeilda, til að taka ákvarðanir um stefnur og strauma er fylgja skyldi. Smám saman fór þó biskupinn í Róm að auka völd sín og varð embætti hans smám saman að því, sem við í dag köllum páfa. Þetta sætti patríarkinn í Konstantínópel (nú: Istanbúl) sig ekki við, þannig að kirkjan klofnaði í rómversk-kaþólsku kirkjuna (sem einnig var nefnd Vesturkirkjan) og rétttrúnaðarkirkjuna (sem einnig var nefnd Austurkirkjan). Á 16. öld varð svo enn klofningur, þegar þeir, sem eru enn í dag kallaðir mótmælendur, mótmæltu valdi páfa og spillingu innan kirkjunnar og klufu sig frá henni í ýmsar deildir, svo sem lúterstrú og kalvínista.
Nú er kristin trú fjölmennustu trúarbrögð heimsins, með um 2 milljarða fylgjenda. Rúmur helmingur þeirra telst til rómversk-kaþólsku kirkjunnar, 367 milljónir eru mótmælendur og 216 milljónir tilheyra grísku/rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Kristnir búa flestir í Norður- og Suður-Ameríku, Evrópu og Ástralíu. Hlutfallslega eru kristnir mun færri í Asíu og Afríku en í hinum álfunum en þar eru þó margir kristnir, meðal annars í Eþíópíu, þar sem kristni hefur verið við lýði frá 330.
Kristni var lögtekin á Íslandi annaðhvort árið 999 eða 1000.[18] Margir Íslendingar höfðu tekið kristna trú fyrr og breiddist kristnin hratt út í landinu.
Siðaskiptin á Íslandi urðu á 16. öld þegar danakonungur setti á mótmælendatrú í stað kaþólskunnar. Nokkur átök urðu og var Jón Arason, síðasti kaþólski biskupinn, hálshöggvinn.
Upp úr því varð Þjóðkirkjan. Hún er ríkisstyrkt trúarstofnun á Íslandi og eru um 60% landsmanna meðlimir hennar (2021).