Knowledge Base Wiki

Search for LIMS content across all our Wiki Knowledge Bases.

Type a search term to find related articles by LIMS subject matter experts gathered from the most trusted and dynamic collaboration tools in the laboratory informatics industry.

Breyta tenglum
Lýðveldið Filippseyjar
Repúbliká ng̃ Pilipinas
Republic of the Philippines
Fáni Filippseyja Skjaldarmerki Filippseyja
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Maka-Diyos, Makatao, Makakalikasan, at Makabansa (tagalog)
Fyrir ást á guði, fólkinu, náttúrunni og landinu
Þjóðsöngur:
Lupang Hinirang
Staðsetning Filippseyja
Höfuðborg Maníla
Opinbert tungumál tagalog, enska
Stjórnarfar Forsetaræði

Forseti Bongbong Marcos
Varaforseti Sara Duterte
Sjálfstæði frá Spáni og Bandaríkjunum
 • Yfirlýst 12. júní 1898 
 • Bandarísk stjórn 4. júlí 1902 
 • Sjálfstæði frá BNA 4. júlí 1946 
 • Núverandi stjórnarskrá 2. febrúar 1987 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
72. sæti
300.000 km²
0,61
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
12. sæti
106.651.394
336/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 1.000 millj. dala (29. sæti)
 • Á mann 9.061 dalir (118. sæti)
VÞL (2019) 0.718 (107. sæti)
Gjaldmiðill piso (PHP)
Tímabelti UTC+8
Þjóðarlén .ph
Landsnúmer +63

Lýðveldið Filippseyjar (tagalog Repúbliká ng̃ Pilipinas), er ríki í Suðaustur-Asíu og fimmta stærsta eyríki heims. Eyjaklasinn samanstendur af 7 641 eyjum og er fjarlægðin frá meginlandi Asíu 1.210 km. Filippseyjar fengu sjálfstæði frá Bandaríkjunum árið 1946 eftir að hafa verið hernumdar af Japönum í heimstyrjöldinni síðari.

Heiti

Þjóðflokkar á Filippseyjum

Árið 1542 sigldi spænski landkönnuðurinn Ruy López de Villalobos til eyjanna Samar og Leyte í miðhluta eyjaklasans. Hann nefndi þær Islas Filipinas (Eyjar Filippusar) eftir Filippusi krónprins á Spáni, syni Karls 5. keisara. Filippus varð síðar Spánarkonungur Filippus 2.. Nafngjöfin breiddist síðan út til alls eyjaklasans.

Saga

Upphaf

Koparplatan frá Laguna

Elstu mannvistarleifar á Filippseyjum hafa verið aldursgreindar upp á 1,7 milljónir ára og tilheyra fornaldarmanninum homo erectus. Elstu merki um nútímamanninn í landinu eru 67 þúsund ára gömul. Ekki er vitað hvaðan hann kom. En elstu ættbálkar Filippseyja komu til eyjaklasans fyrir um 40 þúsund árum. Þeir kallast negritos en talið er að hinn þekkti forni ættbálkur aeta sé af honum kominn. Báðir þessir ættbálkar eru orðnir mjög fámennir á Filippseyjum. Fyrir um 6000 til 2.500 árum f.Kr. fluttist fólk aftur í stórum stíl til eyjanna. Þetta voru ættbálkar malaio-pólýnesa, sem einnig settust að á Kyrrahafseyjum. Fólk þetta kom með tungumál til Filippseyja en talið er að nær öll tungumál eyjanna séu upprunnin frá þessum ættbálkum. Á öldunum e.Kr. hófu ættbálkarnir viðskiptasambönd við nágrannalönd eins og Kína og Japan. Frá og með 9. öld reistu nokkrar þjóðir viðskiptabækistöðvar á eyjunum, svo sem Malæjar og Indónesar en einnig Indverjar (að minnsta kosti frá 9. öld til 12. aldar). Elstu rituðu heimildir Filippseyja er koparplatan frá Laguna. Hún er rituð á máli sem er sambland af sanskrít, fornjavönsku, fornmalasísku og gömlu tagalog. Kaupmenn frá Malasíu og Indónesíu fluttu íslam til Filippseyja. 1380 hóf arabinn Sarif Maqdum trúboðsstörf í Mindanaó. Honum og eftirmönnum hans var nokkuð ágengt. Nokkur soldándæmi voru stofnuð á Mindanaó og nágrannaeyjum í suðri Filippseyja. 1475 kvæntist prins frá Malakka (múslími) innfæddri prinsessu frá Mindanaó og hóf þegar að breiða út íslam. Á svipuðum tíma stofnuðu múslímar bæinn Manila á Lúson. Næstu öld var íslam víða útbreidd en náttúrutrú var þó enn höfuðtrúarbrögð eyjaskeggja allt fram að komu Spánverja á 16. öld.

Magellan

Minnisvarði á eyjunni Mactan, þar sem Ferdinand Magellan lést í bardaga

16. mars 1521 kom Magellan siglandi til Filippseyja en hann var á fyrstu hnattsiglingu sögunnar. Hann var fyrsti Evrópubúinn (ásamt áhöfn hans) sem barði Filippseyja augum. Á þessum tíma var Magellan aðeins með 150 menn eftir af mannskap sínum, því afföllin höfðu verið mikil á siglingunni. Magellan kom til nokkurra eyja í suðurhluta eyjaklasans. Á eyjunni Homonhon helgaði hann eyjarnar Spáni en Magellan sigldi fyrir hönd Spánarkonungs, þótt sjálfur væri hann Portúgali. Spánverjar áttu í fyrstu vinsamleg samskipti við eyjaskeggja og náðu meira að segja að kristna marga þeirra, sérstaklega á Cebu. Einn höfðingjanna á nágrannaeyjunni Mactan neitaði hins vegar að taka kristni, hvað þá að gangast undir Spánarkonung. Því ákvað Magellan að fara þangað með mannskap og neyða spænska yfirvaldið á höfðingjann en nafn hans var Lapu Lapu. Í bardaganum sem fylgdi féll Magellan hins vegar, enda var við ofurefli að etja.

Spænska nýlendan

Þrátt fyrir fall Magellans var Spánarkonungur sér meðvitaður um nýju eyjarnar og sendi fjóra leiðangra þangað milli 15251542. Síðasti leiðangurinn var undir stjórn Ruy López de Villalobos en hann kom til eyjanna Samar og Leyte 1542. Hann gaf þeim heitið Las Islas Filipinas (Eyjar Filippusar) eftir spænska erfðaprinsinum sem síðar varð Filippus II. 1565 kom Miguel Lopez de Legazpi til eyjanna milli Lúson og Mindanaó og stofnaði fyrstu spænsku nýlendurnar. Spánn tók Filippseyjar hins vegar ekki formlega til eignar fyrr en 1569. Í kjölfarið var farið í könnunarleiðangra norður með eyjunum og komu Spánverjar til Manilaflóa ári síðar. Þar réðu Múhameðstrúarmenn ríkjum. Í orrustunni við Manila sigruðu Spánverjar þá, en drógu sig engu að síður til baka. Ári síðar, 1571, fór Legazpi með heilan flota (17 skip) með 120 Spánverjum og mörg hundruð hermönnum innfæddra til Manila til að herja á soldándæmið þar. Í orrustunni við Bankusay 3. júní gjörsigruðu Spánverjar, bæði sökum þess að þeir voru mannfleiri og búnir miklu betri vopnum. Í ágúst á sama ári stofnaði Legazpi borgina Manila formlega, þótt þar hafi innfæddir og múslímar búið áður (byggðin hét þá Maynilad) en Legazpi brenndi hana niður til kaldra kola. Spánverjar reistu borgarmúra og virki en sökum góðs hafnarlægis varð Manila brátt höfuðstaður spænsku nýlendunnar á Filippseyjum. Legazpi sjálfur varð fyrsti spænski landstjórinn. Brátt náðu Spánverjar stjórn á öllum eyjum Filippseyja en ekki gekk það áfallalaust fyrir sig. Innfæddir gerðu oft uppreisn, svo sem 1586 í Pampanga, 1588 í Tondo og 1603 í Sangley. Auk þess eyðilögðu fellibyljir, jarðskálftar og eldgos nokkrar nýlendur. Árið 1641 varð til dæmis stórgos í eldfjallinu Parker á Mindanaó sem olli miklum skaða. Hollendingar gerðu Spánverjum einnig lífið leitt með sjóránum á siglingaleiðum til eyjanna. Oft voru sjóorrustur háðar milli landanna hingað og þangað við eyjarnar. 1646 reyndu Hollendingar að hertaka Filippseyja en Spánverjar náðu að verjast í fimm sjóorrustum við La Naval de Manila. Spánverjar töluðu um undrið mikla og halda enn þann dag í dag upp á sigur þeirra á Hollendingum.

Kristniboð

Með Spánverjum komu munkar og kristniboðar til Filippseyja og hófu að kristna hina innfæddu. Í kristniboðinu var reynt að endurtaka ekki það sem gerðist í Suður-Ameríku, þ.e. að kristna íbúana með sverði og valdi, heldur með fortölum og loforðum. Munkarnir þýddu þar að auki kaþólsk rit á Baybay-málið til að gera trúna aðgengilegri fyrir marga innfædda ættbálka. Þetta bar mikinn árangur. Fólk gekk kaþólsku kirkjunni á hönd, bæði innfæddir og múslímar. 1611 var kaþólskur háskóli stofnaður í Manila (Universidad de Santo Tomas) en hann er elsti nústarfandi háskóli Asíu. Aðeins í suðri tókst kristniboðið ekki sem skyldi. Á Mindanaó og Súlúeyjum viðhélst íslam og er ríkjandi þar enn í dag. Fræðimenn telja að hefðu Spánverjar ekki numið Filippseyja, hefðu eyjarnar allar orðið íslamskar eins og Malasía og Indónesía.

Verslun

Spænskt verslunarskip

Helsta tekjulind Spánverja á Filippseyjum var verslun við Kína. Mikið magn af vörum voru flutt þaðan til Manila, svo sem silki, en þaðan var það sent áfram til Mexíkó (sem einnig var spænsk nýlenda), aðallega til hafnarinnar í Acapulco. Í staðinn var mikið magn af silfri sent frá Mexíkó til Filippseyja sem borgun fyrir kínverskar vörur. Talið er að árlega hafi um 50 tonn af silfri verið flutt frá Mexíkó til Filippseyja og áfram til Kína. Skipin gengu því fram og til baka með vörur en siglt var yfir Kyrrahafið. Fyrir vikið voru Filippseyjar settar undir stjórn landstjórans í Mexíkó. Verslun þessi lokkaði marga sjóræningja, sem og Englendinga, sem reyndu að hagnast á auðlegð verslunarinnar. Aldrei var verslun þessi þó sérlega hagsæld, heldur var hún oft á tíðum rekin með einhverjum halla. Á tímabili íhugaði Spánarkonungur að yfirgefa eyjarnar sökum þessa en af því varð þó ekki. 1762 –64 reyndu Englendingar að ráðast inn í Filippseyja en á þeim árum stóð 7 ára stríðið yfir í Evrópu. Á tímabili náðu Englendingar Manila á sitt vald, sem og nokkrar eyjar. Í suðri gengu múslímar á lagið og juku yfirráð sín, enda Spánverjar uppteknir í stríði við Englendinga. Í friðarsamningum í París 1764, sem markaði endalok stríðsins, var Englendingum gert að skila Manila og eyjunum sem þeir höfðu tekið til Spánverja. Eftir stríðið var farið að nota landbúnaðinn í æ meiri mæli til útflutnings til að drýgja tekur eyjanna. Þannig var mikið ræktað af tóbaki en einnig talsvert af kryddi, svo sem pipar.

Þjóðarvakning

Þjóðhetjan José Rizal

1821 sleit Mexíkó sig laust frá Spáni og varð sjálfstætt ríki. Filippseyjar voru því færðar undir beina stjórn Spánar. Samtímis stöðvaðist verslunin milli Kína og Mexíkó. Strax ári síðar gerðu hermenn af mexíkönskum uppruna uppreisn, þar sem þeir neituðu að afhenda Spánverjum vopn sín. Þeir kölluðu sig filipinos og voru þeir fyrstu sem það gerðu. Hugtakið filipino breiddist síðan með tímanum út til alls landsins. Með opnun Súesskurðarins 1867 var auðveldara að versla við þjóðir Austur-Asíu. Að sama skapi fór hugmyndafræði Evrópulanda að berast til Filippseyja. 1850 stofnaði Pedro Pelaez hreyfingu sem krafðist þess að kaþólska kirkjan losaði um tökin sín á íbúum landsins og yrði sett undir landstjórnina. Auk þess krafðist hún jafnrétti innfæddra og Spánverja (eða fólks af spænsku bergi brotnu). 1868 varð Carlos Maria de la Torre landstjóri Spánverja á Filippseyjum. Hann hóf þegar í stað að umbylta landinu. Ritskoðun var afnumin og frelsi aukið. Þrátt fyrir það gerðu prestar innfæddra uppreisn 1871 en þeir kölluðu sig Gomburza. Uppreisnin var barin niður og leiðtogar hennar teknir af lífi. Frjálslyndir menn hófu að yfirgefa eyjarnar. Í Evrópu voru samtök stofnuð af útfluttum Filippseyingum sem kröfðust sjálfstjórnar og atkvæðarétt í spænska þinginu. Í Evrópu gerði belgíska stjórnin tilboð um að kaupa Filippseyjar 1875 og keisarinn í Berlín gerði annað tilboð 1885. Spánverjar höfnuðu báðum boðum. 1892 stofnaði læknirinn og heimspekingurinn José Rizal stjórnmálaflokkinn La Liga Filipina og krafðist umbóta. Hann var handtekinn og sendur í útlegð til Mindanaó.

Filippeyska uppreisnin

1892 stofnaði Andrés Bonifacio mótmælendahreyfinguna Katipunan, sem óx hratt. Þremur árum síðan var ákveðið að láta til skarar skríða gegn Spánverjum. Allsherjar uppreisn hófst 1896 og var í upphafi nokkuð árangursrík. Rizal var hins vegar handtekinn aftur og tekinn af lífi. Hann er er þjóðhetja Filippseyja í dag, ásamt Andrés Bonifacio. Tvær deildir innan Katipuan áttu hins vegar í erjum með tilheyrandi upplausn. Þegar formaður annarrar deildarinnar, Emilio Aguinaldo, lét taka Bonifacio af lífi 1897, náðu Spánverjar undirtökunum aftur. Aguinaldo og stuðningsmenn hans drógu sig til baka og stofnuðu fyrsta lýðveldi Filippseyja, Biak-na-Bato. Á sama ári var samið um vopnahlé við Spánverja og Bonifacio fór sjálfviljugur í útlegð til Hong Kong meðan uppreisnin hélt áfram annars staðar í landinu. 25. apríl 1898 sagði Spánn Bandaríkjunum stríð á hendur fyrir stuðning hinna síðarnefndu í Kúbu, sem enn var spænsk nýlenda. 1. maí réðust bandarísk herskip á flotahöfn Spánverja í Manila og gjöreyddu henni á skömmum tíma. Aguinaldo sneri þá aftur til Filippseyja og stjórnaði aðgerðum gegn Spánverjum á landi. 12. júní lýsti Aguinaldo yfir sjálfstæði Filippseyja. Fyrsta bráðabirgðastjórnin hittist í Malolos á Lúson, því Manila var enn að hluta til á valdi Spánverja. Í júlí var setið um Manila bæði af Filippseyingum og Bandaríkjamönnum. Annars staðar í landinu var enn barist og fóru Spánverjar nær alls staðar halloka. Manila féll 14. ágúst og gáfust Spánverjar upp fyrir Bandaríkjamönnum, sem í kjölfarið stofnuðu herstjórn í borginni. Í friðarsamningum í París í desember var kveðið svo á um að Bandaríkin yfirtækju Filippseyjar, Púertó Ríkó og Gvam af Spánverjum fyrir 20 milljónir dali.

Bandaríkjastjórn

21. janúar 1899 gaf bráðabirgðastjórnin út stjórnarskrá og 23. janúar var lýðveldið formlega stofnað. Það stóð þó stutt yfir. 4. febrúar skutu Bandaríkjamenn filippínskan hermann til bana fyrir að fara inn á yfirráðasvæði þeirra. Þetta leysti nýtt stríð úr læðingi, því Filippínar gerðu uppreisn gegn Bandaríkjamönnum. Stríð þetta stóð yfir í tvö ár. Talið er að allt að ein milljón almennra borgara Filippseyja hafi látist í átökum. 1901 náðu Bandaríkjamenn að handsama Aguinaldo. 20. apríl bað hann vopnabræður sína um að hætta öllu viðnámi gegn ofureflinu. 29. apríl gáfust því herir Filippseyinga upp, en nokkrir hópar skæruliðar héldu árásum sínum áfram í um áratug. Sömuleiðis gerðu múslímar í suðri Bandaríkjamönnum lífið leitt en fram að þessu höfðu þeir verið hlutlausir. Filippseyjar urðu í apríl 1901 að bandarískri nýlendu og varð enska að þjóðtungu í landinu. William Taft var sendur til eyjanna til að stofna borgaralegu stjórn, sem leysa ætti herstjórnina af. 1901 var hæstiréttur stofnaður, filippínskt tveggja deilda þing skömmu síðar. Fyrstu kosningar fóru fram 1907. Árið 1913 varð Woodrow Wilson forseti Bandaríkjanna. Hann breytti utanríkisstefnunni þannig að í stað þess að líta á Filippseyjar sem hluta Bandaríkjanna, vildi hann stuðla að sjálfstæði eyjanna. Næstu árin stóð undirbúningur yfir, samafara því að byggðir voru upp innviðir þjóðfélagsins, svo sem menntun, þjónusta, heilbrigðiskerfi, og fleira. 1934 voru sett lög þess efnis að undirbúa sjálfstæði Filippseyja inna tíu ára. Samfara þessu fengu eyjarnar sjálfstjórn en bandarískar herstöðvar fengu að vera í landinu áfram. 1937 fengu konur bæði kosningarétt, sem og framboðsrétt. Undirbúningur sjálfstæðis gekk ekki áfallalaust fyrir sig en heimstyrjöldin síðari batt enda á allar slíkar áætlanir í bili.

Herseta Japana

Bandarísk herskip í Manila brenna eftir loftárás Japana

7. desember réðust Japanir á Pearl Harbour á Havaí. Degi síðar réðust þeir á Filippseyjar í samræmdum loftárásum. Nokkrar bandarískar herstöðvar voru eyðilagðar á Lúson, þar af helmingur lofthers þeirra. Sama dag gengu japanskir hermenn á land í Lúson á sex mismunandi stöðum. Á skömmum tíma náðu Japanir að hertaka stóran hluta landsins meðan Bandaríkjamenn, undir stjórn Douglas McArthurs, létu undan síga eftir mikla bardaga. Í apríl 1942 gáfust Bandaríkjamenn og Filippseyingar upp á Bataan-skaga við Manilaflóa. Japanir neyddu tugþúsundir hermanna til að ganga 100 km leið til San Fernando en atburður þessi gekk sem Dauðagangan í Bataan í söguna. Í sex daga gengu bandarískir og filippínskir hermenn vatns- og vistalausir í sólinni. Japanir skutu alla til bana sem helltust úr lestinni og frömdu aðra stríðsglæpi á þeim. Um tíu til sextán þús manns létust, margir úr þorsta, en flestir voru drepnir. Á næstu mánuðum voru nokkrar skæruliðahreyfingar stofnaðar af innfæddum sem börðust gegn japanska setuliðinu. Japanir sjálfir stjórnuðu með mikilli grimmd og frömdu ýmsa stríðsglæpi. Þeir drápu innfædda með ýmsum hætti í stórum stíl, pyntuðu þá, nauðguðu og brenndu suma jafnvel lifandi til bana. Í október 1943 leyfðu Japanir stofnun lýðveldis meðal Filippseyinga. José P. Laurel varð forseti lýðveldisins en Japanir voru alltaf með í ráðum. Almenningur studdi þessa stjórn því ekki. Það var ekki fyrr en í október 1944 að Bandaríkjamenn hófu gagnsókn á Filippseyjum undir stjórn McArthurs. Það tók þá fimm mánuði að ná eyjunum aftur á sitt vald. Hins vegar héldu Japanir Manila í föstum greipum, sem stórskemmdist í bardögum. Bandaríkjamenn náðu henni ekki fyrr en við allsherjar uppgjöf Japana í september 1945. Ekki gáfust allir Japanir upp. Nokkrir tórðu í frumskógum eyjanna. Sá síðasti kom ekki fram fyrr en 1974. Talið er að um ein milljón Filippseyinga hafi látið lífið í hersetu Japana. Milli 1945 og 1949 fóru fram stríðsréttarhöld yfir japönskum yfirmönnum á Filippseyjum og voru æðstu yfirmennirnir dæmdir til dauða.

Sjálfstæði

Á seinni árum stríðsins var útlagastjórn Filippseyinga mynduð í Bandaríkjunum undir stjórn Sergio Osmeña. Í febrúar 1945 var stjórn þessi formlega sett til valda á eyjunum. 4. júlí 1946 fékk Filippseyjar formlega sjálfstæði. Bandaríkjamenn sömdu um viðskipti við eyjarnar, sem og yfirráðarétt yfir 23 herstöðvum til 99 ára. Sá tími var síðar styttur í 25 ár, með vali á fimm ára framlengingu. Á sjötta áratugnum fluttu fátækir bændur í stórum stíl suður til Mindanaó, með stuðningi stjórnarinnar. Þetta leiddi til átaka við múslíma á eyjunni, en ófriður við þá átti eftir að standa yfir til loka 20. aldar. 1963 gerðu Filippseyjar tilkall til héraðsins Sabah, norðaustast á Borneó, en á því ári leystu Bretar upp verndarsvæði sitt þar. Sabah var hins vegar sameinað Malasíu, en deilur landanna um þetta hérað standa enn.

Alræði

Ferdinand Marcos forseti

Í desember 1965 var Ferdinand Marcos kosinn forseti Filippseyja og endurkosinn 1969. Marcos hafði upp áætlanir um að hernema héraðið Sabah á Borneó en íslamskir nýliðar í hernum neituðu að taka þátt í aðgerðunum. Þetta leiddi til fjöldamorðs á þeim. Í kjölfarið stofnuðu múslímar þjóðarhreyfingu sem hafði það markmið að stuðla að sjálfstæði á Mindanaó og öðrum suðlægum eyjum. Marcos var ásakaður um spillingu en fyrstu mótmæli gegn honum hófust í Manila 1970 og stóðu yfir í tvö ár. Í september 1972 setti Marcos neyðarlög og hóf ofsóknir á hendur öllum þeim sem mótmæltu stjórn hans. Tugþúsundir voru handteknir og prentfrelsi var afnumið. Hann setti nýja stjórnarskrá þar sem hann hlaut aukin völd. Í raun tók hann sér alræðisvöld. Múslímar sömdu áætlun um sjálfstjórn á Mindanaó en Marcos hafnaði henni. Neyðarlögin voru ekki afnumin fyrr en 1981. Á sama ári fóru fram kosningar en þær fóru fram undir ströngu eftirliti Marcosar, sem sigraði með miklum yfirburðum. Talað var um meiriháttar kosningasvindl. 1983 var leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Benigno Aquino, myrtur og var herinn sakaður um ódæðið. Eftir enn eitt kosningasvindl 1987 hópuðust rúmlega milljón Filippseyinga á götur Manila og kröfðust afsagnar Marcosar. Kaþólska kirkjan, sem hafði mikil ítök í landinu, studdi þessar kröfur. Í kjölfarið breiddust mótmælin út um allt land. Þegar herinn neitaði skipunum Marcosar um að stöðva mótmælin, sá Marcos sig tilneyddan til að flýja land og fór til Havaí 25. febrúar 1986. Sama dag varð Corazón Aquino, ekkja hins myrta Benigno Aquino, forseti landsins.

Síðustu ár

Stórgos í Pínatúbó 1991

Í stjórnartíð Aquino var ný stjórnarskrá samin, sem var lík þeirri sem Marcos hafði tekið úr gildi. Filippseyjar urðu lýðveldi á ný með forseta sem æðsta mann stjórnarinnar. Aquino þurfti að fást við nokkrar tilraunir til að steypa henni af stóli. Hún var hins vegar tryggilega studd af æðsta herforingja landsins, Fidel V. Ramos, sem 1992 varð fyrsti kjörni forseti landsins sem var mótmælendatrúar. 1989 hlutu múslímar á Mindanaó loks sjálfstjórn, sem þó fékkst ekki viðurkennt meðal allra skæruliða múslíma eða kristinna manna. Skærur milli aðilanna héldu því áfram. 1991 varð stórgos í eldfjallinu Pínatúbó á Lúzón. Meðalhiti í heiminum lækkaði við það um 1,5° í fleiri mánuði en gosið í Pínatúbó var eitt allra mesta gos 20. aldar. Tugir þúsundir manna voru fluttir burt úr nánd við eldfjallið. Samt sem áður biðu 875 manns bana í gosinu. Tvær aðalherstöðvar Bandaríkjanna eyðilögðust í gosinu. Þar af leiðandi neitaði stjórn landsins að framlengja samning sinn við Bandaríkin. Því yfirgáfu allir bandarískir hermenn landið, þeir síðustu í september 1992. Árið 1999 frömdu maóistar á Filippseyjum fjölda hryðjuverka á Lúson. Þúsundir manna létu lífið. Að sama skapi héldu átökin við múslíma í suðri áfram. Þeir frömdu einnig ýmis hryðjuverk víða í landinu. Þau verstu voru framin 2005, þar á meðal í Manila. 2006, í forsetatíð Gloria Macapagal-Arroyo, reyndi hluti hersins að ræna völdum. Arroyo lýsti yfir neyðarástandi, sem stóð frá 24. febrúar til 3. mars.

Árið 2016 tók Rodrigo Duterte við forsetaembættinu. Hann er umdeildur á alþjóðavísu og þá sérstaklega fyrir að aftökur á fíkniefnasölum.

Landfræði

Filippseyjar liggja í Suðaustur-Asíu, fyrir sunnan Kína, fyrir norðaustan Borneó og fyrir norðvestan Nýju-Gíneu. Höfin sem umliggja eyjarnar eru í grófum dráttum Kyrrahafið að austan, Suður-Kínahaf að vestan, Súlúhaf að suðvestan og Celebeshaf að sunnan. Eyríkið liggur rétt norðan við miðbaug. Syðst nær það 5°N en nyrst 21°N. Suðvestustu eyjarnar eru aðeins örfáa km frá ströndum Borneó en nyrstu eyjarnar eru um 150 km fyrir sunnan Formósu. Landinu er yfirleitt skipt í þrennt:

  • Lúson, ásamt nokkrum nágrannaeyjum
  • Visayas-svæðið með eyjunum Samar, Leyte, Negros, Mindóró, Cebu, Palawan og fleirum.
  • Mindanaó, ásamt nokkrum nágrannaeyjum, svo sem Jólóeyjum

Þúsundir smáeyja liggja dreifðar um gjörvallan eyjaklasann. Aðeins 3.144 (af 7.107) eyjanna bera heiti og af þeim eru 880 í byggð. Eyjarnar mynduðust við hreyfingu tveggja jarðfleka, Evrasíuflekans og Filippseyjaflekans. Því eru fjölmörg eldfjöll á eyjunum og eru mörg þeirra virk og hættuleg.

Borgir

Á Filippseyjum er mikill fjöldi borga, þar af fjórar milljónaborgir. Tólf aðrar eru með meira en hálfa milljón íbúa. Nokkur stórborgarsvæði hafa myndast í landinu. Af þeim er höfuðborgarsvæðið, kallað Metro Manila, langstærst með 11,5 milljónir íbúa. Hún er þarmeð meðal 10 stærstu borga heims. Stærstu borgir Filippseyja:

Röð Borg Íbúar Hérað Eyja
1 Quezon City 2,7 milljónir Metro Manila Lúzon
2 Maníla 1,6 milljónir Metro Manila Lúson
3 Caloocan City 1,5 milljónir Metro Manila Lúson
4 Davaó 1,4 milljónir Davaó Mindanaó
5 Cebu City 866 þúsund Cebu Cebu
6 Zamboanga City 807 þúsund Zamboanga del Sur Mindanaó
7 Antipolo City 677 þúsund Rizal Lúson
8 Pasig City 669 þúsund Metro Manila Lúson
9 Taguig City 644 þúsund Metro Manila Lúson
10 Cagayan de Oro City 602 þúsund Misamis Oriental Mindanaó
11 Parañaque City 588 þúsund Metro Manila Lúson
12 Dasmariñas 575 þúsund Cavite Lúson
13 Valenzuela City 575 þúsund Metro Manila Lúson
14 Las Piñas City 522 þúsund Metro Manila Lúson
15 General Santos City 538 þúsund South Cotabato Mindanaó
16 Makati City 529 þúsund Metro Manila Lúson

Eyjar

Filippseyjar samanstanda af 7.107 eyjum. Stærst þeirra er Lúson en hún er 17. stærsta eyja heims. Margar eyjanna eru þó litlar. Aðeins þrettán eyjar eru stærri en 1 þúsund km2. Alls eru 880 eyjar í byggð. Stærstu eyjar Filippseyja:

Röð Eyja Stærð í km2 Íbúar Höfuðstaður
1 Lúson 104.688 46,2 milljónir Manila
2 Mindanaó 94.630 14 milljónir Davaó
3 Palawan 14.609 994 þúsund Puerto Princesa
4 Negros 13.328 3,6 milljónir Bacolod City
5 Samar 13.080 1 milljón
6 Panay 12.297 3,4 milljónir Iloilo City
7 Mindóró 9.735 1 milljón Calapan
8 Leyte 7.368 1,9 milljónir Tacloban
9 Cebu 4.468 3 milljónir Cebu City
10 Bohol 4.117 1,2 milljónir Tagbilaran
11 Masbate 3.296 435 þúsund Masbate City
12 Catanduanes 1.492 232 þúsund
13 Basilan 1.234 259 þúsund Isabela City
14 Marinduque 952 227 þúsund Boac
15 Busuanga 890 56 þúsund Coron
16 Jóló 869 300 þúsund Jóló

Eldvirkni, eldfjöll

Nær öll fjöll á Filippseyjum hafa myndast við eldvirkni. Við austurjaðar eyjanna mætast tveir jarðflekar, Evrasíuflekinn og Filippseyjaflekinn, og eru Filippseyjar að öllu leyti á Evrasíuflekanum. Filippseyjaflekinn hreyfist í vestur og ýtist undir Filippseyja. Þetta skýrir hina miklu eldvirkni eyjanna. Mörg eldfjallanna eru virk og hafa á síðustu áratugum orsakað mikla eyðileggingu í nágrenni sínu. Gosið í Pínatúbó 1991 var eitt allra stærsta gos 20. aldarinnar. Mestu eldfjöll Filippseyja (listinn er ekki tæmandi):

Eldfjall Hæð í m Gaus síðast Eyja
Apó 2.954 Ekki vitað Mindanaó
Dulang-Dulang 2.948 Ekki vitað Mindanaó
Púlag 2.922 Ekki vitað Lúson
Kitanglad 2.899 Óvirkt Mindanaó
Kalatungan 2.824 Ekki vitað Mindanaó
Ragang 2.815 1916 Mindanaó
Talomo 2.674 Óvirkt Mindanaó
Nanluyaw 2.602 Óvirkt Mindanaó
Mayon 2.462 2009 Lúson
Balatukan 2.450 Ekki vitað Mindanaó
Kanlaon 2.435 2006 Negros

Önnur þekkt eldfjöll:

Eldfjall Hæð í m Gaus síðast Eyja
Matútúm 2.286 2011 Mindanaó
Parker 1.824 1641 Mindanaó
Búlúsan 1.565 2011 Lúson
Pínatúbó 1.486 1991 Lúson

Ár og vötn

Fjölmargar ár eru á Filippseyjum, en flestar þeirra eru litlar. Stærsta áin heitir Cagayan (eða Rio Grande de Cagayan) nyrst á Lúson og er hún 505 km löng.

Fjölmörg stöðuvötn eru í landinu og eru þau sömuleiðis flest frekar lítil. Stærstu stöðuvötn Filippseyja:

Röð Stöðuvatn Stærð í km2 Eyja Mesta dýpt
1 Laguna de Bay 949 Lúson 20 m
2 Lanaóvatn 354 Mindanaó 112 m
3 Taalvatn 244 Lúson 172 m
4 Mainitvatn 173 Mindanaó 223 m

Veðurfar

Filippseyjar eru í hitabeltinu og þar eru eingöngu tvær árstíðir: Regntími og þurrkatími. Regntíminn einkennist af monsúnsigningum en þá getur rignt í margar vikur. Rigningin getur verið svo mikil að hætta skapast af völdum flóða, aurskriða og annað. Víða á eyjunum eru regnskógar þar sem rigning fellur nær daglega. Rigningartíminn er yfirleitt frá nóvember til mars en hann flytur svalara loft frá hafinu. Kaldasti mánuðurinn er janúar. Á þurrkatímanum rignir líka en í miklu minna mæli. Hlýjasti mánuðurinn er maí. Samspil úrkomu og hita má setja upp í töflu:

Mánuður Des Jan Feb Mar Apr Maí Jún Júl Ág Sep Okt Nóv
Úrkoma
ÞURRKATÍMI
REGNTÍMI
Hiti
SVALT
HEITT

Filippseyjar liggja á leið fellibylja (filipínó: bagyo), sem koma að austan frá Kyrrahafi. Fellibyljatíminn er frá júlí til október. Árlega fara að meðaltali níu hitabeltisstormar og fellibyljir um eyjarnar og koma yfirleitt að landi á austurhluta eyjanna, sérstaklega á Lúson. Þrátt fyrir að Manila sé á vesturströnd Lúson, þá kemur fyrir að borgin lendi í fellibyl með alvarlegum afleiðingum. Mestur fjöldi fellibylja sem skollið hafa á Filippseyjum á einu ári voru nítján árið 1993. Fæstir hafa þeir verið fjórir. Versti fellibylurinn sem skollið hefur á eyjarnar var Thelma í nóvember 1991 en í honum létust rúmlega fimm þúsund manns. 1.200 annarra var saknað.

Stjórnsýsla

Á Filippseyjum er lýðræði með forsetastjórn. Forseti landsins er með víðtæk völd. Hann kallar saman þingið, sem samanstendur af tveimur deildum. Í efri deild sitja þingmenn í sex ár í senn en í neðri deild þrjú ár. Kosningar eru skylda almennings, þótt ekki séu beittar refsingar fyrir að svíkjast um.

Stjórnsýslueiningar

Sýslureiningar á Filippseyjum

Filippseyjum er skipt niður í 80 sýslur (tagalog: lalawigan). Þær eru svo flokkaðar saman í 17 héruð. Höfuðborgarsvæðið er sér svæði og er ekki með í þessum tölum. Sýslunum er stjórnað af sýslustjóra en þeir hafa ekki umráð yfir stærri borgum. Í þeim ráða borgarstjórar og borgarstjórnir. Sérstakt hérað er heimastjórnarsvæði múslíma á Mindanaó en þar fer eigin heimastjórn með stjórn allra helstu mála.

Her

Stjórn Filippseyja rekur her en hann samanstendur af landher, flota og flugher. Alls eru 113 þúsund manns í hernum. Engin herskylda er í landinu.

Efnahagslíf

Gjaldmiðill

Í landinu er notaður filippínskur pesó. 1 pesó jafngildir 100 centavos (einnig ritað sentimos). Pesóinn var innleiddur af Spánverjum í upphafi. Þótt Bandaríkjamenn hafi stjórnað landinu í nokkra áratugi, var pesóinn látinn standa. Þegar Filippseyjar urðu sjálfstætt ríki 1948 var enn notast við pesó en auðkenndur við nafn landsins. Stytting filippínska pesóins er PHP.

Orkumál

Helstu orkugjafar Filippseyja eru olía, jarðgas, viður og kol. Á eyjunni Palawan er stórt jarðgassvæði. Gasið er leitt um sjó og land 500 km leið til Batangas City á Lúzon. Gasið er að mestu notað í orkuver á Manila-svæðinu sem alls framleiða 8 GW. Þar með hefur innflutningþörf landsins á olíu og gasi minnkað gríðarlega. Á síðustu áratugum hafa vatnsorka og jarðvarmi bæst við. Stærsta vatnsorkuver landsins er við Agusfljót á Mindanaó en það framleiðir 418 MW. Filippseyjar eru næstmesti notandi jarðvarmaorku í heimi (á eftir Bandaríkjunum), enda fyrirfinnst jarðvarmi nær alls staðar í landinu. Árið 2010 var notkunin 1.904 GW, en það er 27% af rafmagnsnotkun landsins. Aðeins Ísland er með hærra hlutfall (30%). Vindorkan hefur einnig nýlega bæst við. Við Ilocos Norte var vindorkuver tekið í notkun 2002 sem framleiðir 40 MW. Til stendur að smíða tvö sjávarfallaorkuver í landinu.

Samgöngur

Jeepney er mjög vinsælt farartæki á Filippseyjum

Á eftir bifreiðinni eru ferjur langmest notaða samgöngutæki á Filippseyjum. Alls staðar eru ferjuhafnir sem sigla til allra stóru eyjann í eyjaklasanum en einnig til smærri eyja. Flugsamgöngur eru einnig mikið notaðar. Í landinu eru 85 almennir flugvellir. Helsta flugfélag landsins er Philippine Airlines en það flýgur til langt út fyrir landsteinana. Ólíkt öðrum asískum löndum er járnbrautarkerfið frekar lítið á Filippseyjum. Það samanstendur nær eingöngu af einni línu á Lúson, frá San Fernando yfir Manila og til Legazpi. Áætlanir eru uppi um að stækka netið mjög á næstu árum og þá einnig á Panay og Mindanaó. Sérfyrirbæri á Filippseyjum er hinir svokölluðu Jeepneys. Það eru stækkaðir og umbreyttir Willisjeppar sem Bandaríkjamenn skildu eftir við brottför sína. Jeepneys eru nokkurs konar smárútur eða stórir bílar sem fólk getur hoppað upp í að vild. Margir þeirra eru því troðfullir.

Heilbrigðismál

Á Filippseyjum eru skráð 2.400 sjúkrahús og 90 þúsund læknar. Þetta gera einn lækni á hverja 833 íbúa. Flest sjúkrahúsin búa þó við fjárskort og eru því ekki búin bestu tækjum. Meðhöndlun sjúklinga er ókeypis þjónusta en sjúklingar verða þó að greiða fyrir lyfin sjálfir.

Menntun

Samkvæmt innlendum stofnunum eru 93,4% landsmanna læsir og er það jafnt milli kynja. Rúmlega 2000 háskólar (eða skólar á háskólastigi) eru í landinu öllu. Elsti þeirra er Santo Tomas háskólinn í Manila en hann var stofnaður 1611. Þar með er hann elsti nústarfandi háskóli Asíu.

Íbúar

Á Filippseyjum búa rúmar 92 milljónir manna en þar með er landið tólfta fjölmennasta ríki heims. Höfuðeyjan Lúson, sem er á stærð við Ísland, er ein og sér með 46,2 milljónir íbúa og er fimmta fjölmennasta eyja heims. Að sama skapi eru Filippseyjar þriðja fjölmennasta eyríki heims (á eftir Indónesíu og Japan). Þéttleiki landsins alls er 333 íbúar á km2, sem er álíka mikið og í Japan.

Talið er að íbúar Filippseyja hafi í upphafi komið frá Tævan og tilheyri mannflokki Kyrrahafseyja. Síðar hafi fólk frá Kína blandast þeim. Auk þess hefur fólk komið frá Malasíu og Arabíu. Íbúar eyjanna í dag skiptast í tugi flokka og er mynstur þeirra nokkuð flókið. Flestir tilheyra ættflokki tagalog á Lúzón, 28%, en næstfjölmennastir eru cebuanó með 13%. Aðrir eru fámennari. Af öðru mannfólki eru Spánverjar, Kínverjar og Indverjar fjölmennastir.

Tungumál

Á Filippseyjum eru alls töluð 171 tungumál, þótt nokkur þeirra séu aðeins töluð af fámennum hópum manna. Algengustu málin eru:

  • Tagalog (22 milljónir á Lúson)
  • Sebúanó (20 milljónir á Sebú)
  • Ilokanó (7.7 milljónir á Lúson)
  • Hiligaynon (7 milljónir á Panay og Negros)

Mjög snemma var spænskum nýlenduherrum ljóst að til að geta átt eðlileg samskipti við íbúa landsins (sem og mismunandi ættflokkar sín á milli), varð að tala sameiginlegt tungumál. Því varð spænska að höfuðmáli eyjanna. 1863 varð spænska skyldufag í öllum skólum landsins. Þegar Bandaríkjamenn eignuðust eyjarnar 1901 tapaðist kunnátta í spænsku hratt. Að sama skapi tók enska við og breiddist hratt út. Á fjórða áratug 20. aldar ákvað landstjórnin að búa til nýtt tungumál sem allir íbúar Filippseyja gætu sætt sig við. Tagalog var undirstaða nýja málsins en það fékk heitið filipínó. 1973, þegar Marcos var forseti, var gefin út stjórnarskrá sem gerði ráð fyrir tveimur þjóðtungum í landinu, filipínó og ensku. Spænskan var endanlega felld niður. Nýjasta stjórnarskráin frá 1987 staðfesti þetta en gerði ráð fyrir að spænska og arabíska væru valmöguleikar sem erlend mál. Um þriðjungur íbúa Filippseyja tala filipínó sem móðurmál (fyrsta mál). Aðrir íbúar tala einnig filipínó en ekki sem fyrsta mál og í mörgum tilfellum ekki einu sinni sem annað mál.

Trú

Filippseyjar er stærsta kristna land Suðaustur-Asíu. 81% landsmanna eru kaþólikkar, en kaþólska kirkjan barst með Spánverjum til eyjanna á 16. öld. Hins vegar kristnaðist landið ekki fyrr en í lok 17. aldar. Nær allt þjóðfélagið í landinu er undir áhrifum kaþólskrar trúar. Verið er að búa til stærstu Maríustyttu heims á Filippseyjum, en hún mun verða 102 m há (6 m hærri en frelsisstyttan í New York). Næststærsti trúarhópur landsins eru múslímar með 5%. Eftir það koma nokkrar mótmælendakirkjur. Önnur trúarbrögð, eins og búddismi og hindúismi, hafa ekki náð festu í landinu að ráði.

Menning

Bókmenntir

Stærstur hluti bókmennta landsins hefur verið ritaðar á spænsku, enda komu fram margir rithöfundar á 19. öld meðan Spánverjar réðu yfir eyjunum. Helstu rithöfundar landsins, svo sem Pedro Paterno, þjóðhetjan José Rizal, Marcelo del Pilar og Francisco Balagtas rituðu allir á spænsku. Helsti rithöfundar landsins sem rituðu á filipínó eru áðurnefndur Balagtas og Patricio Mariano.

Vefnaður

Vefnaður frá Filippseyjum

Dæmigerður innlendur vefnaður er þekktur hjá nokkrum ættflokkum. Itneg-fólkið er þekkt fyrir ofin teppi, kölluð Binakol. Mynstrið er þannig úr garði gert að það býður upp á missýn, eftir því hvernig á það er horft. Ga‘dang-fólkið vefur með perluskrauti sem ofinn er í klæðin eða teppin. Aðrir ættbálkar, svo sem Ilongot-fólkið, notar ekki bara perlur, heldur líka nef stórra fugla, harða plöntuhluta og málma. Á Mindanaó er gjarnan fléttað með þráðum Abaca-plöntunnar. Afurðin er þekkt víða í heiminum sem Manila-hampur.

Íþróttir

Ein útbreiddasta íþróttagrein alþýðunnar er sípa. Hér er um nokkurs konar fótboltatennis að ræða, þ.e. nota þarf fæturna til að koma bolta, yfirleitt gerður úr pálmablöðum, yfir net. Vinsælustu klassískar íþróttir eru körfubolti og bardagaíþróttir. Í körfubolta eru Filippseyingar margfaldir asískir meistarar. Besti árangur þeirra á HM er þriðja sætið. Á eyjunum eru ýmsar bardagaíþróttir stundaðar af kappi en þær eru mjög mismunandi eftir greinum. 2009 gaf Arroyo forseti út lög sem gáfu íþróttinni Modern Arnis stöðu sem þjóðaríþrótt og þjóðarbardagaíþrótt. Knattspyrna er ung íþrótt, enda var eyjunum stjórnað af Bandaríkjamönnum til 1946. Íþróttin er langt á eftir körfuboltanum í landinu. Filippseyjar hafa tekið þátt í Ólympíuleikunum síðan 1924 (París), fyrir utan 1980 er landið hunsaði leikana í Moskvu vegna áhrifa frá Bandaríkjunum. Filippseyjar voru fyrsta hitabeltislandið til að taka þátt í vetrarólympíuleikum. Stærsta íþróttahátíð eyjanna kallast Palarong Pambasa en hún hefur verið haldin síðan 1948. Þetta er nokkurs konar skólakeppni í ýmsum íþróttagreinum. Keppt er í fótbolta, golfi, bogfimi, badminton, hafnabolta, skák, fimleikum, tennis, sundi, borðtennis, taekwondo, frjálsum og blaki.

Matargerð

Á Filippseyjum er gjarnan borðað balut, þ.e. frjótt egg með hálfstálpuðu fóstri

Matargerð á Filippseyjum er nokkurs konar sambland af spænskum, mexíkönskum, kínverskum, indverskum, japönskum og bandarískum áhrifum. Á eyjunum er mikið borðað af fiski og sjávarafurðum, oftast með hrísgrjónum en þau eru höfuðfæða eyjaskeggja. Fiskurinn er tilreiddur á ýmsan hátt og jafnvel borðaður hrár (kryddaður). Af kjöti er svínið vinsælt, nema meðal múslíma í suðri. Þjóðarrétturinn er adobo, sem gjarnan er gerður úr svínakjöti, en einnig úr naut eða kjúklingi. Auk kryddtegunda er edik, sojasósa eða kókosmjólk sett í hann, allt eftir því héraðinu. Langar núðlur tákna langlífi og eru gjarnan borðaðar á afmælisdögum. Vinsæll forréttur (eða snakk) er balut en það er frjótt egg, steikt eða soðið. Í egginu er hálfstálpað fóstur sem þykir mikið gómsæti. Þannig er eggjahvítan eða rauðan fyrst sogin út en síðan er harði hlutinn borðaður (fóstrið). Í eldri tíð trúðu menn að balut yki kynhvötina. Filippseyingar borða ekki með prjónum, heldur með hnífapörum. Þó aðallega með gaffli og skeið. Úti á landi er einnig borðað með fingrunum.

Helgidagar

Helstu helgidagar:

Dags. Helgidagur Ath.
1. janúar Nýársdagur
Breytilegt að vetri Kínverskur nýársdagur
2. febrúar Stjórnarskrárdagur
25. febrúar Minningardagur People Power Til minnis um hreyfingarnar sem leiddu til falls Marcosar
Breytilegt að vori Skírdagur
Breytilegt að vori Föstudagurinn langi
Breytilegt að vori Páskadagur Einn dagur
Næsti mánudagur við 9. apríl Dagur heiðursins Til minnis um dauðagönguna í Bataan
1. maí Verkalýðsdagurinn
Næsti mánudagur við 12. júní Sjálfstæðisdagurinn Dagurinn sem Filippseyjar lýstu yfir sjálfstæði
27. júlí Kirkjudagur Iglesia Ni Cristo Stofndagur samnefndrar kirkju
Næsti mánudagur við 21. ágúst Dagur Benigno Aquino Dánardagur Benigno Aquino
Síðasti mánudagur í ágúst Dagur hetjanna Til minnis um hróp Pugad Lawin sem upphaf uppreisnarinnar 1895
1. nóvember Allraheilagramessa
2. nóvember Allrasálumessa
Breytilegt að hausti Eidul Fitr Hátíð Múhameðstrúarmanna
30. nóvember Dagur Bonifacio Fæðingardagur Andrés Bonifacio
24. desember Aðfangadagur
25. desember Jóladagur Einn dagur
30. desember Dagur Rizals Dánardagur þjóðhetjunnar José Rizal
31. desember Gamlársdagur

Heimsminjar

Þrír staðir á Filippseyjum eru á heimsminjaskrá UNESCO menningarlegs eðlis.

Ár Heimsminjar Ath.
1993 4 Ágústínusarkirkjur (elstu kirkjur landsins) Í Manila, Santa Maria, Paoay, Miagao
1995 Hrísgrjónastallar á Lúson
1999 Miðborgin í Vigan á Lúson Elsta nýlenduborg Spánverja

Auk þess eru tveir landfræðilegir staðir á náttúruminjaskrá UNESCO:

  • Kóralrifið Tubbataha í Súlúhafi (síðan 1993)
  • Þjóðgarðurinn Puerto Princesa á eyjunni Palawan (síðan 1999).

Heimildir

Tenglar