Málverk af Peter Paul Rubens og Isabellu Brant frá því um 1610 sýnir vestur-evrópska fatatísku í upphafi barokktímans. Föt hennar eru samkvæmt hollenskri tísku þar sem pípukraginn hélst lengur í notkun en annars staðar. Blúndukragar á borð við þann sem Rubens ber voru orðnir nær allsráðandi.
1601-1610 var fyrsti áratugur 17. aldar sem er hluti af árnýöld í sögu Evrópu . Á þessum árum kom barokkið upp í evrópskri myndlist, með fyrstu verkum Peter Paul Rubens , og byggingarlist með framhlið Kirkju heilagrar Súsönnu í Róm eftir Carlo Maderno sem var lokið við árið 1603.
Á þessum árum hófst framleiðsla á sjónaukum og stjörnufræðingar á borð við Galileo Galilei notuðu þessi nýju tæki til að sýna fram á sólmiðjukenninguna .
Helstu atburðir
Stytta af Karli hertoga í Karlstad .
Einokunarverslun var komið á á Íslandi þar sem eingöngu borgarar frá Kaupmannahöfn , Málmey og Helsingjaeyri höfðu leyfi konungs til að stunda verslun . Þetta fyrirkomulag leiddi til átaka milli kaupmanna og Íslendinga sums staðar og verslun við Englendinga og Þjóðverja var áfram mikil.
Elísabet 1. lagði Írland endanlega undir enska konungdæmið með sigri í umsátrinu um Kinsale . Elísabetartímabilinu í sögu Englands lauk síðan þegar Elísabet lést 1603 og Jakob 1. tók við. Hann sameinaði fyrstur England , Írland og Skotland undir einn konung. Ýmsar tilraunir kaþólskra Englendinga til að ráða hann af dögum voru gerðar fyrst eftir valdatöku hans, s.s. Samsæri Watsons , Maine-samsærið og Púðursamsærið sem enn er minnst á Guy Fawkes-nótt .
Tímabilið frá um 1600 til 1608 er kallað „harmleikjatímabilið“ hjá William Shakespeare þegar hann samdi meðal annars harmleikina Óþelló , Lér konungur og Makbeð . Á sama tíma var ný grein sviðslista , ópera , að ryðja sér til rúms á Ítalíu og Claudio Monteverdi samdi elstu óperuna sem enn er reglulega sett upp, Orfeus , árið 1607 .
Jedótímabilið hófst í sögu Japans þegar Tokugawa Ieyasu varð sjógun 1603 . Það stóð til 1868 .
Englendingar og Frakkar stofnuðu landnemabyggðir í Norður-Ameríku : í Virginíu og Quebec . Henry Hudson kannaði norðurslóðir og norðausturströnd Norður-Ameríku í leit að norðausturleiðinni til Kína .
Stórveldistími Svíþjóðar hófst þegar þeir reyndu að leggja undir sig Eystrasaltslöndin undir stjórn Karls hertoga . Sigmundur 3. Vasa, konungur Pólsk-litháíska samveldisins var hindraður í því að taka við sænsku krúnunni þegar stéttaþingin samþykktu að gera mótmælendatrú að ríkistrú.
Í Rússlandi stóðu rósturtímarnir frá 1599 þar til Rómanovættin tók við völdum 1613 . 1601 til 1603 geisaði versta hungursneyð í sögu Rússlands og er áætlað að allt að þriðjungur íbúanna hafi látist. 1606 hóf Ívan Bolotnikov bændauppreisn gegn Vasilíj Sjúiskíj , keisara, sem var barin niður ári síðar.
Framleiðsla hófst á kíkjum og Galileo Galilei notaði einn slíkan til að afsanna jarðmiðjukenninguna byggt á athugunum sínum 1609 og 1610 .
Ráðamenn